Innlent

Annar ók gegn rauðu ljósi og hinn ekki með gild öku­réttindi

Atli Ísleifsson skrifar
Áreksturinn varð um klukkan 18:30 í gærkvöldi.
Áreksturinn varð um klukkan 18:30 í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Árekstur varð þegar tveir bílar rákust saman á gatnamótum í hverfi 105 í Reykjavík um klukkan 18:30 í gærkvöldi.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er ekki tekið fram á hvaða gatnamótum um ræðir. Þó segir að annar sölumaðurinn sé grunaður um að hafa ekið gegn rauðu ljósi. Hinn ökumaðurinn var ekki með gild ökuréttindi – hafði aldrei öðlast ökuréttindi.

Fram kemur að annar ökumaðurinn hafi fundið til eymsla í hálsi en hafi sjálfur ætlað að leita aðstoðar á bráðamóttöku Landspítalans.

Þjófnaður á slökkvitækjum

Í dabók lögreglu er einnig fjallað um að um klukkan 18 í gærkvöldi hafi verið tilkynnt um þjófnað á slökkvitækjum úr húsi í miðborg Reykjavíkur. Þar hafi tveir strákar verið að stela tveimur slökkvitækjum og spreyjað á öryggismyndavélar í bílastæðahúsi.

Skömmu síðar var svo tilkynnt um þjófnað úr verslun í miðborg Reykjavíkur þar sem maður hafði komið inn og stolið úlpu. Hann hafi svo flúið af vettvangi á rafmagnshlaupahjóli.

Ók rafhlaupahjóli undir áhrifum

Um hálf tvö í nótt var tilkynnt um rafhlaupahjólaslys í hverfi 105 í Reykjavík. Ungur maður hafði þar dottið af rafhlaupahjólinu og hlotið áverka á höfði. Er hann grunaður um að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Þá segir frá því að um klukkan 23 hafi afskipti verið höfð af ofurölvi konu í hverfi 105 í Reykjavík. Var henni ekið að heimili sínu þar sem sambýlismaður tók á móti henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×