Fótbolti

Frakkar hafa á­hyggjur af veirufar­aldri í franska hópnum fyrir úr­­slita­­leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antoine Griezmann var valinn besti maður undanúrslitaleiksins en bæði Dayot Upamecano og  Adrien Rabiot voru fjarverandi vegna veikinda.
Antoine Griezmann var valinn besti maður undanúrslitaleiksins en bæði Dayot Upamecano og  Adrien Rabiot voru fjarverandi vegna veikinda. Getty/Peter Byrne

Frakkar tryggðu sér í gær sæti í úrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu í Katar með 2-0 sigri á Marokkó. Næst á dagskrá er Argentína í leiknum um heimsmeistaratitilinn á sunnudaginn.

Það eru samt áhyggjur í herbúðum Frakka af heilsu leikmannahópsins. Tveir leikmenn misstu af undanúrslitaleiknum vegna veikinda.

Landsliðsþjálfarinn Didier Deschamps sagði frá því á blaðamannafundi eftir sigurinn í gær að Frakkar væru að gera allar varúðarráðstafanir í bókinni til að koma í veg fyrir hópsmit.

Miðvörðurinn Dayot Upamecano og miðjumaðurinn Adrien Rabiot, sem báðir hafa spilað stórt hlutverk með Frökkum á mótinu, misstu af undanúrslitaleiknum vegna veikinda.

Deschamps vonast til þess að þeir Upamecano og Rabiot verði búnir að ná sér fyrir úrslitaleikinn.

Upamecano var byrjaður að æfa aftur og var á bekknum á móti Marokkó en Rabiot var skilinn eftir á hótelinu. Rabiot sagði ESPN frá því að honum var skipað að halda sig inn í herberginu sínu.

Kingsley Coman sýndi einkenni fyrr um daginn samkvæmt Deschamps en það er einhvers konar Arabíuflensa að ganga á milli gesta í Katar.

„Í Dóha hefur nú kólnað aðeins og svo er loftræstingin á fullu allan tímann,“ sagði Didier Deschamps.

„Það hafa verið nokkur dæmi um flensu í hópnum. Við erum að reyna að passa okkur svo að þetta verði ekki að faraldri. Leikmenn hafa gefið allt inn á vellinum og ofnæmiskerfið er veikara fyrir vikið,“ sagði Deschamps.

„Dayot Upamecano veiktist strax eftir Englandsleikinn. Það gerist stundum þegar þú gefur svona mikið af þér, líkaminn er veikur fyrir og þá er líklegra að þú fáir veirusýkingu,“ sagði Deschamps.

„Við gerum allar ráðstafanir í bókinni til að forðast hópsmit. Við höfum aðskilið hann frá hópnum og Adrien líka,“ sagði Deschamps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×