Enski boltinn

Karius segist ekki bera neinn kala til Klopp sem læsti hann úti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Loris Karius grætur eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Real Madrid árið 2018.
Loris Karius grætur eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Real Madrid árið 2018. Getty/Simon Stacpoole

Loris Karius talar ekki illa um knattspyrnustjóra Liverpool þrátt fyrir að Jürgen Klopp hafi hent honum úr liðinu eftir mistökin dýrkeyptu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2018.

Karius er að reyna endurkomu í ensku úrvalsdeildina með Newcastle United fjórum árum eftir úrslitaleikinn afdrifaríka í Kiev.

Karius gaf Real Madrid tvö mörk á silfurfati í úrslitaleiknum, fyrsta og þriðja markið í 3-1 sigri spænska liðsins. Fyrst henti hann boltanum í Karim Benzema sem skoraði og svo lak langskot Gareth Bale í gegnum hendur hans.

Karius hefur verið á láni undanfarin ár því hann spilaði ekki aftur fyrir Liverpool. Klopp keypti Alisson nokkrum vikum seinna og markvarslan var ekki lengur vandamál hjá Liverpool.

Karius var tvö tímabil hjá Besiktas og eitt ár hjá Union Berlin. Hann fékk ekkert að spila á síðast ári sínu hjá Liverpool. Hann samdi síðan við Newcastle í september.

„Tími minn hjá Liverpool var búinn og ég var að leita mér að nýju félagi. Það tókst ekki að ná samningi og því lenti ég í þeirri stöðu að ég varð að vera hjá Liverpool vitandi það að ég fengi ekki nein tækifæri,“ sagði Loris Karius.

„Ég ræddi þetta við knattspyrnustjórann. Ég ber samt engan kala til hans en vitandi stöðuna frá byrjun gerði þetta mjög erfitt,“ sagði Karius.

„Þegar þú færð aldrei að vera í hópnum þá missir þú af því að upplif sigrana, tapleikina og að ferðast með liðinu,“ sagði Karius.

„Ég saknaði þess. Það er ekki auðvelt að vera jákvæður og halda áfram að vinna af því að þú veist að það skiptir engu máli. Ég lærði samt mikið af þessu, reyndi mitt besta á æfingum og reyndi að halda mér jákvæðum andlega,“ sagði Karius.

„Ég hef spilað yfir tvö hundruð leiki í efstu deild og landsliðum og ég veit hvað ég get. Ég vissi að ég gæti boðið margt. Ég er bara að verða þrítugur og það er ekki gamalt fyrir markvörð. Síðasta tímabil var samt erfitt,“ sagði Karius.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×