Erlent

Løkke verður utan­ríkis­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre, Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmannaflokksins og Lars Løkke Rasmussen, formaður Moderaterne, kynntu stjórnarsáttmálann í gær.
Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre, Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmannaflokksins og Lars Løkke Rasmussen, formaður Moderaterne, kynntu stjórnarsáttmálann í gær. AP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, kynnti ráðherrana í nýrri ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins, hægriflokksins Venstre og miðjuflokksins Moderaterne í morgun.

Frederiksen mun áfram gegna embætti forsætisráðherra, Lars Løkke Rasmussen, formaður Moderaterne, verður utanríkisráðherra og Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre, verður varnarmálaráðherra og varaforsætisráðherra í nýrri stjórn að því er segir í frétt DR

Stjórnarsáttmálinn var kynntur í gær og er niðurstaða margra vikna stjórnarmyndunarviðræðna eftir þingkosningarnar sem fram fóru 1. nóvember þar sem Jafnaðarmannaflokkur Frederiksens bætti við sig fylgi. 

„Við höfum lagt kapal sem gerir þessa ríkisstjórn sem öflugasta,“ sagði Løkke í morgun.

Í ráðherraliðinu er meðal annars að finna tvo utanþingsráðherra. Christina Egelund, sem er fyrrverandi þingmaður Frjálslynda bandalagsins (Liberal Alliance) verður menntamálaráðherra og Lars Aagaard, fyrrverandi forstjóri Dansk Energi, viðskipta- og hagsmunasamtaka danskra orkufyrirtækja, verður nýr loftslags- og orkumálaráðherra. 

Løkke talaði í gær fyrir því að hann væri hlynntur því að sækja einstaklinga utan þingsins til að gegna embætti ráðherra.

Ellefu ráðherrar koma úr röðum Jafnaðarmannaflokksins og sjö úr röðum Venstre. Fimm ráðherrar koma úr röðum Moderaterne og eru tveir þeirra utan þings.

Fimmtán ráðherrar eru karlar og átta eru konur. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×