Innlent

Blésu af æfingar yngri barna vegna kuldans

Kjartan Kjartansson skrifar
Þórður Einarsson er yfirþjálfari knattspyrnudeildar hjá Þrótti Reykjavík.
Þórður Einarsson er yfirþjálfari knattspyrnudeildar hjá Þrótti Reykjavík. Þróttur

Knattspyrnuæfingum yngri flokka var aflýst hjá Þrótti í Reykjavík vegna kuldans í dag. Yfirþjálfari segir að búast megi við að gripið verði til frekari slíkra ráðstafana vegna veðurs á morgun.

Óvenjulangvarandi kulda hefur gert í höfuðborginni undanfarna daga. Reykjavíkruborg ákvað í dag að hafa neyðarskýli sín fyrir heimilislausa opin allan sólarhringinn vegna kuldans og fólk hefur verið beðið um að fara skynsamlega með heitt vatn. Sundlaugum hefur sums staðar verið lokað.

Þórður Einarsson, yfirþjálfari hjá knattspyrnudeild Þróttar, segir að æfingar yngstu barnanna í fimmta, sjötta og sjöunda flokki hafi verið blásnar af og eldri flokkar hafi verið færðir inn í íþróttahús vegna kuldans. 

Vísar Þórður til reglna Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) um að börn séu ekki látin æfa við sjö gráðu frost eða meira. Þær reglur byggi á lungnaheilbrigði barnanna. Inn í ákvörðunina spilaði þó að félagið eigi í basli með bræðslukerfi á nýjum gervigrasvöllum í Þróttheimum í Laugardal.

Sjálfur var Þórður með aukaæfingu úti í hádeginu.

„Boltarnir frusu bara á meðan það var ekki verið að sparka í þá,“ segir hann í samtali við Vísi.

Áfram er spáð kulda í borginni á morgun og gerir Þórður ráð fyrir að fleiri æfingar verði felldar niður þá, þó að engin ákvörðun hafi enn verið tekin um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×