Þetta kemur meðal annars fram í grein sem Haukur birtir á Vísi en þar má lesa á milli lína að Hauki þykir allt þetta mál grátbroslegt. Hann segir að þegar fjárlaganefnd hafi dregið í land, að sögn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur formanns fjárlaganefndar vegna þess að málið komst í hámæli, þá hafi nefndin skáskotið sér hjá því sem kalla má brot við lögum. Bjarkey heldur því fram að málið sé ekki klúður en Haukur telur það af og frá.
„Við getum sagt að gerningur fjárlaganefndar vegna N4 við aðra umræðu brjóti í bága við lögin um opinber fjármál. En fara má í kringum það með eftiráskýringu og segja að fjárveitingin hafi „bara alls ekki“ verið ætluð til eins aðila, heldur renni hún í styrkjapott sem framkvæmdarvaldið hefur fyrir frjálsa fjölmiðla og Lilja Alfreðsdóttir var í mörg ár að koma á koppinn og hefur einu sinni úthlutað úr, á síðast liðnu sumri. Þá lítur þetta faglega út,“ segir Haukur meðal annars í grein sinni.
Reyndar stangast þessi gerningur á við eitt og annað varðandi vafstur löggjafarvaldsins að mati Hauks. Til að mynda þá standist það enga skoðun að sjóði sem ætlað er að veita fé til frjálsra fjölmiðla beri að taka sérstakt tillit til staðsetningar þeirra. Haukur telur það ekki standast jafnræðisreglu þar sem allir fjölmiðlar þjóna landsbyggðinni. „Staðsetning kemur málinu raunar ekki við á tímum netsins og ef taka á tillit til þess hvort efni fjölmiðilsins er „um málefni ákveðinna svæða“ eða ekki er það óréttmætt skilyrði því þá er verið að blanda sér inn í ritstjórnarstefnu fjölmiðlanna.“
Haukur segir meirihlutann á þingi nú láta sem „opinber umræða“ hafi valdið því að sveigt hafi verið frá upphaflegum sjónarmiðum með fjárveitingunni, en telur líklegra að starfsmenn framkvæmdarvaldsins, einkum starfsmenn fjármálaráðuneytisins, hafi stöðvað málið með þeim rökum að það bryti í bága við lögin um opinber fjármál. „Ekki eru aðrir aðilar líklegri til að verja það sjónarmið – og ábending um lagabrot er ástæða sem beygir pólitískan vilja oftast.“