Sport

Óðinn Þór sá til þess að Schaffhausen komst aftur á sigurbraut

Andri Már Eggertsson skrifar
Óðinn Þór skoraði ellefu mörk gegn St. Gallen 
Óðinn Þór skoraði ellefu mörk gegn St. Gallen  Kadetten

Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten Schaffhausen komust aftur á sigurbraut þegar Kadetten Schaffhausen vann St. Gallen í svissneska handboltanum. Í síðustu fjórum deildarleikjum hafði Kadetten Schaffhausen tapað tveimur leikjum og gert tvö jafntefli.

Liðin byrjuðu á að skiptast á mörkum en um miðjan fyrri hálfleik fór Kadetten Schaffhausen að sigla fram úr og komst fjórum mörkum yfir. Staðan í hálfleik var 14-18 Kadetten Schaffhausen í vil. St. Gallen minnkaði forskot Kadetten Schaffhausen minnst niður í tvö mörk en nær komst St. Gallen ekki og sigurinn var aldrei í hættu. Kadetten Schaffhausen vann að lokum fimm marka sigur 27-32. 

Óðinn Þór Ríkharðsson, leikmaður Kadetten Schaffhausen, fór venju samkvæmt á kostum og skoraði ellefu mörk. Það verður erfitt fyrir Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara Íslands í handbolta, að líta framhjá Óðni Þór Ríkharðssyni þegar hann velur tuttugu manna leikmannahóp sem fer á HM í janúar. 

Kadetten Schaffhausen á einn leik eftir í deildinni þar til gert verður hlé vegna heimsmeistaramótsins í handbolta sem hefst í janúar. Kadetten Schaffhausen mætir Pfadi Winterthur þann 22. desember næst komandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×