Fótbolti

Eyddi jólunum með Messi og samdi síðan við brasilískt félag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez er kominn í ljósblátt eftir að hafa samið við lið í Brasilíu.
Luis Suarez er kominn í ljósblátt eftir að hafa samið við lið í Brasilíu. Twitter/@LuisSuarez9

Gamli Liverpool maðurinn Luis Suarez er búinn að finna sér nýtt félag og það í brasilíska boltanum.

Suarez samdi við Gremio sem spilar í A-deildinni í Brasilíu. Samningurinn er til ársloka 2024.

Suarez kemur á frjálsri sölu en hann var laus allra mála eftir að hafa hjálpað æskufélagi sínu Nacional að vinna meistaratitilinn í Úrúgvæ í október. Suarez eyddi þremur mánuðum í Úrúgvæ en tilkynnti svo fyrir HM að hann væri að leita sér að nýju félagi.

Hinn 35 ára gamli Suarez, skoraði átta mörk í sextán leikjum með Nacional en áður gerði hann flotta hluti í Evrópu með Ajax Amsterdam, Liverpool, Barcelona og Atletico Madrid.

Suarez flaug beint til Brasilíu frá Argentínu þar sem hann eyddi jólunum með vini sínu Lionel Messi í Rosario.

„Einn sá stærsti í sögu Úrúgvæ er að koma til okkar til að halda áfram sigurhefð sinni. Mikill markaskorari, margfaldur meistari og stríðsmaður. Velkominn Luisito,“ sagði í yfirlýsingu frá Gremio. Félagið er frá Porto Alegre í suður Brasilíu, ekki langt frá landamærunum við Úrúgvæ.

Fyrsti leikur Gremio á árinu 2023 verður 17. janúar næstkomandi í Recopa Gaucha ofurbikarnum á móti Sao Luiz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×