Innlent

Starfs­leyfi vegna skot­svæðisins á Álfs­nesi fellt úr gildi

Atli Ísleifsson skrifar
Skotíþróttamenn hafa lengi stundað æfingar á æfingasvæðinu við Álfsnes.
Skotíþróttamenn hafa lengi stundað æfingar á æfingasvæðinu við Álfsnes. AÐSEND/GUÐMUNDUR GÍSLASON

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins í Reykjavík frá síðasta sumri um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis til reksturs skotvallar á Álfsnesi. Svæðinu hefur því verið lokað.

Niðurstaða nefndarinnar er að starfsemin sé ekki talin samræmast landnotkun svæðisins sam­kvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.

„Er því starfsemi sú sem heimiluð er með hinu kærða starfsleyfi ekki í samræmi við landnotkun umrædds svæðis eins og það er tilgreint í aðal­skipulagi“, og er þar vísað í lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Að auki kemur fram að starfsleyfið hafi farið í bága við ákvæði skipulagsreglugerðar um landnotkunarflokka en í þeirri reglugerð sé ekki að finna heimild til að víkja frá gildandi landnotkun samkvæmt skipulagi.

Lokað fyrirvaralaust í september 2021

Skotsvæðinu á Álfsnesi var lokað fyrirvaralaust í september 2021 eftir að íbúar og landeigendur í nágrenninu höfðu kært leyfisveitinguna nokkrum mánuðum fyrr á þeim forsendum að blýmengun hlytist af starfsemi skotsvæðisins, í fjöru og sjó við Álfsnes.

Þá sagði í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar að starfsemi skotfélagsins í Álfsnesi hafi verið, nánast frá upphafi, „í mikilli óþökk íbúa, meðal annars vegna hávaðamengunar.“

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf hins vegar úr nýtt starfsleyfi fyrir æfingaaðstöðuna í júlí 2022.

Endurkast frá Esjuklettum

Landeigendur í nágrenninu kærðu þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins til nefndarinnar þar sem þess var krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Jafn­­framt var þess krafist að hávaðamælingar heilbrigðiseftirlitsins sem fram komi í starfs­leyfinu yrðu ógildar og hljóðmælingar gerðar af óháðum aðila.

Kærendur vísuðu til heilsuspillandi hávaða­mengun frá skotsvæðinu sem bergmáli við endurkast frá Esjuklettum og þá valdi jarðvegs­mengun á skotsvæðinu og mengun í sjó og fjöru því að fuglalíf væri í hættu og náttúru spillt.


Tengdar fréttir

Fá að skjóta á Álfs­nesi á ný

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir æfingaaðstöðu Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis. Svæðinu var lokað fyrirvaralaust í september í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×