Erlent

Yfirlýsingar um vopnahlé ekkert nema blekkingar og áróður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir hafa bent á að Rússar hafi ekki veigrað sér við að sprengja upp skotmörk 25. desember, þegar flestir Úkraínumanna héldu upp á jólin.
Margir hafa bent á að Rússar hafi ekki veigrað sér við að sprengja upp skotmörk 25. desember, þegar flestir Úkraínumanna héldu upp á jólin. AP/Alexei Alexandrov

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir yfirlýsingar Rússlandsforseta um vopnahlé yfir rússnesku jólahátíðina ekkert annað en blekkingarleik til að freista þess að tefja gagnsókn Úkraínuhers í austurhluta Donbas.

Forsetinn sagði í næturávarpi sínu að markmið vopnahlésins væri eingöngu að gefa Rússum ráðrúm til að koma hermönnum og hergögnum á framlínur átakanna í Donbas. „En hverju mun það skila þeim? Bara frekari aukningu í fjölda látinna,“ sagði hann.

Selenskí talaði á rússnesku í stað úkraínsku og sagði að átökin myndu ekki enda fyrr en hermenn Rússlands yfirgæfu Úkraínu sjálfviljugir eða yrði „hent út“ af Úkraínumönnum.

Stjórnvöld í Úkraínu gáfu strax í gær lítið fyrir yfirlýsingar Vladimir Pútín um vopnahlé yfir jólahátíðina og Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði þær til marks um að Pútín væri að reyna að „finna súrefni“. Þá hefði honum orðið hugsað til þess að Rússlandsforseti hefði ekki veigrað sér við að sprengja upp sjúkrahús og kirkjur 25. desember, þegar flestir Úkraínumenn héldu upp á jólin.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War segir yfirlýsingarnar líklega upplýsingaherferð ætlaða til að sverta orðspor Úkraínu. Pútín geti ekki gert kröfu um að stjórnvöld í Úkraínu samþykki vopnahlé á þessum tíma en Rússar muni í kjölfarið fordæma Úkraínumenn fyrir að vera óviljuga til sátta.

Allar líkur séu á að Rússar hyggist nota tímann til að safna vopnum sínum.


Tengdar fréttir

Pútín vill jólavopnahlé

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur skipað Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra sínum, að koma á einhliða vopnahléi í hádegi á morgun til miðnættis á laugardagskvöld (7. janúar), eða í 36 klukkustundir. Það er eftir að æðsti klerkur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar lagði slíkt vopnahlé til.

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Rússar sagðir stefna á aðra herkvaðningu

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er að undirbúa þjóð sína fyrir langvarandi átök í Úkraínu og Rússar eru sagðir vera að undirbúa aðra herkvaðningu. Bakhjarlar Úkraínumanna vinna að því að senda ný vopnakerfi til landsins en forðast enn að senda skriðdreka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×