Fótbolti

Gagnrýndi kaupstefnu Manchester United

Atli Arason skrifar
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United. Getty images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, gagnrýndi harðlega þá félagaskipta stefnu sem félagið viðhélt fyrir komu hans til United síðasta sumar.

„Það var enginn liðsandi,“ sagði Ten Hag við hollenska miðilinn Voetbal. „Dýnamíkin í hópnum var enginn og andlegur styrkur lítill. Ég sá það þegar ég stóð utan félagsins og líka fyrstu vikuna mína hjá félaginu.“

Undir stjórn Ten Hag hefur United fengið til sín fimm leikmenn, þá Tyrell Malacia, Lisandro Martinez, Casemiro, Antony og Christian Eriksen. Hollenski knattspyrnustjórinn gagnrýndi þá kaupstefnu sem var hjá félaginu áður en hann kom.

„Félagið hefur keypt ótrúlegan fjölda af leikmönnum síðustu ár sem hafa hreinlega ekki verið nógu góðir. Flest félagaskipti voru meðalmennska og hjá United er meðalmennska ekki nægilega gott. Treyja liðsins vegur þungt,“ sagði Ten Hag áður en hann bætti við.

„Malacia, Martinez, Casemiro og Antony eru allir stríðsmenn á meðan Eriksen er tæknilegur sigurvegari með frábæran persónuleika. Við viljum bara það besta. Allir leikmenn sem koma til Manchester United verða að vera í hæsta gæðaflokki,“

Manchester United missti af Cody Gakpo sem fór til Liverpool um síðustu mánaðamót en United er talið vera í leit af nýjum framherja á félagaskiptamarkaðinum eftir að Cristiano Ronaldo var rekinn frá félaginu í síðasta mánuði.

„Aðeins alvöru persónuleikar, sem geta sýnt góðar frammistöðu undir pressu, mega spila hér. Það er þess vegna sem koma Casemiro var svo mikilvæg, ásamt Raphael Varane. Nú höfum við leikmenn sem eru vanir því að vinna bikara,“ sagði Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×