Fótbolti

Weghorst orðaður við United

Atli Arason skrifar
Wout Weghorst fagnar marki gegn Argentínu á HM í Katar.
Wout Weghorst fagnar marki gegn Argentínu á HM í Katar. Getty Images

Wout Weghorst, framherji Burnley, gæti verið að ganga til liðs við Manchester United á lánssamningi.

Weghorst er sem stendur á láni hjá Besiktas í Tyrklandi en hann skoraði í sigri liðsins gegn Kasimpasa í tyrknesku ofurdeildinni í gær. Weghorst fagnaði markinu með því að veifa stuðningsmönnum, þar sem margir telja Weghorst vera að kveðja stuðningsmenn liðsins.

Şenol Güneş, knattspyrnustjóri Besiktas, er þó ekki á sama máli.

„Weghorst er mikilvægur leikmaður hjá okkur. Það er ekki nóg að veifa stúkunni, hann þarf líka að tala við félagið. Ég hef heyrt af þessum orðrómi en það er ekkert ákveðið. Ég mynda mér skoðun á þessu þegar ég er búinn að tala bæði við hann [Weghorst] og félagið,“ sagði Gunes eftir sigur Besiktas í gær.

Weghorst er 30 ára gamall Hollendingur og er á láni hjá Besiktas út þessa leiktíð. Weghorst er samningsbundinn Burnley en öll þrjú félög þurfa að samþykkja félagaskiptin til Manchester United ef það á að verða af þeim núna í janúar. Burnley keypti Weghorst á 12 milljónir punda frá Wolfsburg í janúar á síðasta ári.

Weghorst lék með Hollendingum á HM í Katar og skoraði tvö mörk, bæði í 2-2 jafntefli gegn Argentínu í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×