Erlent

Frum­varp um lág­marks­þjónustu í verk­falls­að­gerðum lagt fram í breska þinginu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Umfangsmiklar verkfallsaðgerðir standa yfir á Bretlandseyjum þessa dagana.
Umfangsmiklar verkfallsaðgerðir standa yfir á Bretlandseyjum þessa dagana. AP/Kirsty Wigglesworth

Breska ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp sem er ætlað að tryggja lágmarksþjónustu í verkfallsaðgerðum. Frumvarpið er afar umdeilt og meira að segja sagt skaðlegt í skýrslu stjórnvalda um möguleg áhrif þess.

Grant Shapps, ráðherra viðskipta-, orku- og iðnaðar, sagði í samtali við Sky News í morgun að eins og sakir stæðu væri það hreint lotterí hvort íbúar fengju lágmarksþjónustu í verkfallsaðgerðum. Sums staðar væri þjónustan tryggð en annars staðar ekki.

Þannig hefðu hjúkrunarfræðingar til að mynda tryggt lágmarksþjónustu á landsvísu þegar þeir færu í verkfallsaðgerðir en það gerðu sjúkraflutningamenn ekki. 

Gert er ráð fyrir að deilt verði um frumvarpið á þinginu og að verkalýðshreyfingin muni láta kanna lögmæti lagasetningarinnar fyrir dómstólum.

Shapps sagðst í viðtalinu vonast til þess að stjórnvöld þyrftu ekki að grípa til þess að beita lögunum, heldur myndi umræðan verða til þess að allir sættust á að tryggja lágmarksþjónustu. Þá sagði hann óboðlegt að almenningur byggi við óáreiðanleika og mismunun eftir búsetu.

Stjórnvöld létu gera mat á mögulegum áhrifum lagasetningarinnar og þar kemur fram að hún muni mögulega leiða til tíðari verkfallsaðgerða og aukinna skaðlegra áhrifa til lengri tíma litið.

Paul Nowak, framkvæmdastjóri Trades Union Congress, ítrekar þessar áhyggjur og sagði lögin hafa það í för með sér að þegar fólk hefði greitt um það atkvæði í lýðræðislegri kosningu að fara í verkfall, þá væri engu að síður hægt að neyða það til að vinna eða segja því upp ella.

Nowak sagði frumvarpið eitur fyrir vinnumarkaðinn.

Verkamannaflokkurinn hefur varað við því að frumvarpið opni fyrir þann möguleika að atvinnurekendur gætu farið í mál við verkalýðsfélög og sagt félagsmönnum þeirra upp. Flokkurinn muni tala gegn frumvarpinu og fella lögin úr gildi ef og þegar hann kemst til valda.

Umfangsmiklar verkfallsaðgerðir setja mark sitt á daglegt líf á Bretlandseyjum um þessar mundir, þar sem hjúkrunarfræðingar, kennarar og lestarstarfsmenn krefjast kjarabóta allir á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×