Fótbolti

Bikar­klúður Barcelona: Gætu dottið úr bikarnum þrátt fyrir 9-0 sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geyse Ferreira, framherji Barcelona, hafði ekki tekið út leikbann sitt frá því á síðustu leitkíð.
Geyse Ferreira, framherji Barcelona, hafði ekki tekið út leikbann sitt frá því á síðustu leitkíð. Getty/Diego Souto

Kvennalið Barcelona vinnur ekki tvöfalt fjórða árið í röð eftir grátleg mistök hjá stjórnendum félagsins.

Barcelona verður væntanlega dæmt úr leik í bikarnum þrátt fyrir 9-0 stórsigur á Osasuna á þriðjudaginn.

Nú hefur komið í ljós að Barcelona notaði ólöglegan leikmann það er leikmann sem átti að taka út leikbann í leiknum.

Leikmaðurinn er hin brasilíska Geyse sem skoraði eitt marka Börsunga í leiknum.

Geyse var rekinn af velli í bikarleik með fyrri liði sínu Madrid CFF á síðustu leiktíð og hafði ekki tekið út það leikbann.

Leikurinn í sextán liða úrslitunum á móti Osasuna var fyrsti bikarleikur Barcelona á leiktíðinni.

Jonathan Giraldez, þjálfari Barcelona, afsakaði sig með því að leikbannið hafi ekki birst á heimasíðu spænska knattspyrnusambandsins.

Sevilla gæti líka farið sömu leið eftir að liðið notaði Nagore Calderon í 1-0 sigri á Villarreal. Calderon hafði einnig fengið rautt spjald í síðasta bikarleik sínum á síðasta tímabili.

Karlalið Real Madrid var dæmt úr leik í bikarkeppninni 2015-16 fyrir að nota Denis Cheryshev sem átti að taka út leikbann vegna gulra spjalda á láni hjá Villarreal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×