Real Madrid og Valencia mættust í kvöld í fyrri undanúrslitaleiknum í spænska ofurbikarnum en lið öðlast þar þátttöku með því að lenda í tveimur efstu sætum deildakeppninnar eða komast í bikarúrslit tímabilsins á undan.
Karim Benzema kom Real yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann skoraði úr vítaspyrnu sem hann náði sjálfur í en hann var felldur af Eray Cömert. Strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Lino fyrir Valencia eftir sendingu frá Lato Toni og staðan orðin 1-1.
Liðunum tókst ekki að skora fleiri mörk fyrir lok venjulegs leiktíma og heldur ekki í framlengingu. Því varð að grípa til vítaspyrnukeppni.
Þar voru það leikmenn Real sem voru sterkari á svellinu. Thibaut Courtois tryggði sigurinn þegar hann varði frá Jose Gaya og Real því komið í úrslitaleikinn. Það kemur í ljós á morgun hvort það verður Barcelona eða Real Betis sem mætir þeim í úrslitum.
Sigur Real í kvöld gæti þó verið dýrkeyptur því liðið missti tvo leikmenn af velli vegna meiðsla. Lucas Vasquez meiddist á fæti og þá fékk Eder Militao skot í höfuðið og fór vankaður af velli.