Erlent

Telja sig hafa fundið elsta rúna­stein sögunnar í Noregi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hér má sjá steininn og rúnirnar.
Hér má sjá steininn og rúnirnar. Getty

Fornleifafræðingar í Noregi telja sig hafa fundið elsta rúnastein sögunnar. Steinninn er allt að tvö þúsund ára gamall en talið er að hann sé einn sá fyrsti sem norrænir menn reyndu að skrifa rúnir á. 

Steinninn fannst árið 2021 í gröf nálægt Tyrifirði rétt hjá höfuðborginni Osló. Rúnirnar voru síðan aldursgreindar og samkvæmt grein The Guardian voru þær ritaðar einhvern tímann á tímabili frá fæðingu Krists til árið 250.

Bæði lengd og breidd steinsins eru rúmlega þrjátíu sentimetrar en á honum má finna átta rúnir sem stafa orðið „idiberug“. Ekki er vitað hvað það þýðir en líklega er það nafn á manneskju eða fjölskyldu. 

„Án nokkurs vafa munum við öðlast verðmæta þekkingu um upphaf rúnaskriftar,“ hefur The Guardian eftir Kristel Zilmer, prófessor hjá Háskólanum í Osló. Steinninn verður til sýnis á safni í eigu skólans, Þjóðminjasafni Osló. 

Eldri rúnir hafa fundist á öðrum hlutum en aldrei á steini. Elsta rúnaskrift sem fundist hefur var á beinagreiðu í Danmörku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×