Innlent

Réðst á starfs­mann bráða­mót­tökunnar og olli skemmdum á munum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ein tilkynning barst lögreglu um „öldauðan“ mann við verslunarmiðstöð.
Ein tilkynning barst lögreglu um „öldauðan“ mann við verslunarmiðstöð. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að Landspítalanum í Fossvogi í gærkvöldi eftir að einstaklingur veittist að starfsmanni bráðamóttökunnar og olli skemmdum á innanstokksmunum.

Viðkomandi var handtekinn og verður mögulega ákærður fyrir ofbeldi gegn opinberum starfsmönnum og eignaspjöll. Samkvæmt yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar virðist hann hafa verið óviðræðuhæfur og var vistaður í fangageymslu.

Í Hafnarfirði var tilkynnt um rán í verslun. Þar höfðu tveir einstaklingar veist að starfsmanni og tekið vörur ófrjálsri hendi. Lögregla stöðvaði einstaklingana á Reykjanesbraut og handtók, auk þriðja manns sem var með þeim í bifreiðinni. 

Lögregla sinnti einnig útköllum vegna innbrots í bifreið í miðborginni og minniháttar eldsvoða á veitingastað. Þá barst tilkynning um kvöldmatarleytið um „öldauðan“ mann við verslunarmiðstöð og fékk sá að sofa úr sér í fangaklefa.

Um klukkan eitt í nótt fór lögregla í eftirför á eftir ökumanni sem hafði ekki sinnt ábendingum um að stöðva bifreið sína. Eftirförin hófst í Ártúnsbrekku og endaði skömmu síðar á Ártúnsholti eða í Árbæ. 

Ökumaðurinn reyndist ekki vera undir áhrifum en þegar hann var spurður að því af hverju hann hefði ekki stöðvað bílinn, sagðist hann ekki hafa vitað að hann ætti að stoppa þar sem hann hefði ekki gert neitt af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×