Sex sveitarfélög hafa nú samið við ríkið um samræmda móttöku flóttamanna en Hafnarfjörður bættist í hópinn í gær og hefur samið um móttöku 450 flóttamanna. Reykjavík tekur á móti 1500, Akureyri 350, Árborg 100, og Hornafjörður átta. Í síðustu viku samdi Reykjanesbær þá um móttöku 350 flóttamanna.
„Við erum í raun með þennan hóp, eða þennan fjölda, svo gott sem í sveitarfélaginu nú þegar og erum svo bara að aðstoða hann. Þetta er fólk sem er komið með alþjóðlega vernd og er komin í gegnum matið hjá Útlendingastofnun og komið í hendur Vinnumálastofnunar,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Munu ekki taka við fleirum þó vel hafi gengið
Húsnæðisvandi hefur flækt málin víða en sami vandi virðist ekki vera jafn mikill í Reykjanesbæ. Fólk geti verið í átta vikur í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar og segir Kjartan þau geta aðstoðað með húsnæði eftir þann tíma.
„Ef að það gengur ekki þá höfum við úrræði þar sem þau geta verið í tólf vikur í viðbót, samtals 20 vikur eða fimm mánuði, og við treystum okkur alveg til þess að finna og hjálpa fólki að finna húsnæði á þeim tíma,“ segir Kjartan.
Þrátt fyrir að vel hafi gengið þá muni þau ekki taka á móti fleirum en samið hefur verið um.
„Nei, við ætlum ekki að gera það. Við ætlum að setja punktinn þarna og bara kalla eftir því að fleiri sveitarfélög komi að þessu verkefni og þessari samfélagslegu ábyrgð sem að við og þau sveitarfélög sem hafa þegar skrifað undir eru að axla. Það eru fullt af sveitarfélögum um landið sem að mér finnst að ættu að koma í þetta með okkur,“ segir Kjartan.
Reykjanesbær búi yfir umfangsmikilli reynslu, enda sinnt þessum málum frá árinu 2004, sem þau séu tilbúin til að miðla. Það muni nýtast vel í ljósi þess að áfram er spáð stöðugum straumi flóttamanna til landsins í ár.
„Við getum kennt fleiri sveitarfélögum á Íslandi en svo erum við líka sem land og þjóð að læra af öðrum þjóðum,“ segir Kjartan.
En eins og staðan er núna þá er kannski hámarkinu náð í Reykjanesbæ með flóttamenn?
„Já.“