Erlent

Tveir nem­endur látnir eftir skot­á­rás

Árni Sæberg skrifar
Paul Parizek, talsmaður lögreglunnar í Des Moines ræðir við fréttamenn fyrir utan skólann.
Paul Parizek, talsmaður lögreglunnar í Des Moines ræðir við fréttamenn fyrir utan skólann. Charlie Neibergall/AP

Tveir nemendur skóla, sem er ætlaður ungmennum sem eiga erfitt uppdráttar í hefðbundnu skólakerfi, eru látnir eftir skotárás. Einn starfsmaður var alvarlega særður í árásinni.

Skólinn þar sem árásin var framin er í borginni Des Moines í Iowa-fylki í Bandaríkjunum. Hann er úrræði fyrir ungmenni á aldrinum fjórtán til átján ára sem búa við erfiðar félagslega aðstæður og gengur illa í skóla, að því er segir í frétt AP um málið.

Þar segir að viðbragðsaðilar hafi verið kallaðir úr skömmu fyrir klukkan 13 að staðartíma og að á vettvangi hafi þeir fundið tvo alvarlega særða nemendur og hafið skyndihjálp um leið. Nemendurnir hafi látist á sjúkrahúsi.

Þá sé fullorðinn starfsmaður skólans alvarlega særður á sjúkrahúsi og á leið í aðgerð.

Árásin ekki talin handahófskennd

Lögregluyfirvöld í Des Moines telja að árásin hafi verið skipulögð fyrir fram.

„Árásinni var klárlega beint að ákveðnum einstaklingum. Hún var ekki handahófskennd. Það er ekkert handahófskennt við þetta,“ hefur AP eftir Paul Parizek, talsmanni lögreglunnar í Des Moines

Þá segir lögreglan að um tuttugu mínútum eftir árásina hafi lögregluþjónar stöðvað bifreið, sem passaði við lýsingu vitna, um tvær mílur [3,2 kílómetra] frá skólanum.

Þrír voru handteknir grunaðir um árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×