Skoðun

Jafn­réttis­bar­átta í 116 ár

Tatjana Latinovic skrifar

Kvenréttindafélag Íslands er 116 ára í dag, stofnað 27. janúar 1907 á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Í stofnskrá stendur að félagið starfi að því að „íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“. Meira en öld frá þessum merka degi má með sanni segja að okkar hlutverk sé nú sem fyrr hið sama – að vinna að kvenréttindum og jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, með áherslu á mannréttindi og starfi gegn hvers konar mismunun.

Kvenréttindafélag Íslands hefur lengi haldið í þá hefð að heiðra félaga sína sem skarað hafa fram úr í störfum sínum fyrir félagið, kvenréttindi og femíníska baráttu. Í ár er það okkur sönn ánægja að gera þrjár konur að heiðursfélögum í félaginu.

Kvenréttindafélag Íslands heiðrar Esther Guðmundsdóttur fyrir áratugalöng störf í þágu félagsins og kvenréttinda, Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir störf í þágu kvenréttinda og rannsóknir á sögu kvenna á Íslandi og Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að brjóta glerþakið fyrir konur og hinsegin fólk í stjórnmálum á Íslandi og heimsvísu.

Esther, Kristín og Jóhanna hafa allar unnið ötullega að uppfylla þann draum sem súffragettur, Rauðsokkur og femínistar hafa borið í brjósti sér í meira en heila öld: að skapa samfélag sem byggist á kynjajafnrétti. Margt hefur áunnist, þökk sé þrotlausri baráttu þeirra, en því miður hafa konur á Íslandi ekki enn náð fullu jafnrétti á við karla og ekki njóta allar konur og kynsegin fólk á Íslandi góðs af jafnréttisbaráttu fyrri ára. Við skuldum þeim sem ruddu brautina fyrir okkur miklar þakkir en einnig loforð um að við munum halda baráttunni áfram þangað til jafnrétti er náð fyrir okkur öll.

Kvenréttindafélag Íslands er 116 ára ungt í dag. Við höldum baráttunni áfram og hvetjum öll til að taka þátt í henni með okkur.

Höfundur er formaður Kvenréttindafélags Íslands. Hægt er að styðja við félagið til að halda áfram jafnréttisbaráttunni með því að gerast mánaðarlegir styrktaraðilar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×