Skoðun

Vg leggur smá­báta­sjó­menn á högg­stokkinn!

Inga Sæland skrifar

Vg er því miður í mínum huga hreinn og klár svikaflokkur. Flokkur sem boðaði bjartari tíð fyrir bothættar sjávarbyggðir og kvótalitlar útgerðir, fyrir kosningarnar 2021. Margur bar þá von í brjósti að þegar Svandís Svavarsdóttir (Vg) settist í ráðherrastól myndi hún beita sér fyrir auknu réttlæti og bjartari tímum sjávarbyggðanna. Sú von var andvana fædd.

Verk Svandísar hafa hingað til ekki verið í neinu samræmi við þá stefnu sem flokkurinn bauð kjósendum. Þvert á móti. Loforð um að efla strandveiðar voru „efnd“ með því að stöðva strandveiðar upp úr miðjum júlí og í stað þess að vinda ofan af kerfinu, þá flækir hún það enn frekar!

Svandís bítur höfuðið af skömminni

Á nýliðnu ári setti hún á laggirnar einn fjölmennasta stýrhóp Íslandssögunnar. Markmiðið var sagt vera að ná betri sátt um umdeilt kvótakerfi, sem hefur um áratugaskeið verið eitur í beinum stærsta hluta þjóðarinnar.

Nú liggja fyrir bráðabirgðatillögur STÓR-hópsins sem unnar voru undir forystu Eggerts Benedikts Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra N1 og Granda. Hann skartar nú þeim virðulega titil að vera leiðtogi á sviði sjálfbærrar þróunar í forsætisráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur.

Það er holur hljómur í meintum sáttatillögum. Í stuttu máli fela þær ekkert annað í sér en áróður og einbeittan vilja til festa núverandi kvótakerfi enn kirfilegar í sessi. Kvótakerfi sem í rúmlega fjörutíu ára sögu sinni hefur t.d. ekki náð brotabroti af þorskafla sem að var stefnt. Áróðurinn fyrir þröngum sérhagsmunum SFS (LÍÚ) í „sáttatillögunum“ er það grímulaus að þar má finna tillögur um að leggja af strandveiðar og byggðakvóta, með því að hætta að taka 5,3% af heildaraflaheimildum til byggða- og atvinnumála.

Árás á lífríkið í nafni umhverfisverndar

Ég er gjörsamlega orðalaus á allri þessari veruleikafirringu í nafni umhverfisverndar. Það sér það hver heilvita maður að sú fyrirtælun að hleypa mun stærri og aflmeiri togurum við togveiðar en nú er leyft, nánast upp í fjöru er ekkert annað en hrein og klár atlaga að viðkvæmasta lífríkinu í kringum landið. Hvað segja umhverfissinnarnir í Vg við sjávarsíðuna þegar þeir eru nánast komnir með stærðarinnar togara með manni og mús inn á svefnherbergisgólfið til sín?

Þessar ömurlegu hagsmunatengdu tillögur eru í takti við fyrri verk ráðherrans. Við skulum ekki gleyma að eitt fyrsta embættisverk hennar var að skerða aflaheimildir til strandveiða. Það liggur því fyrir einbeittur vilji ráðherrans til að þurrka út smábátaútgerð með þeim hörmulegu afleiðingum sem það hefði fyrir viðkvæmar sjávarbyggðir landsins.

Raunveruleg sátt næst aldrei með því að troða óréttlæti VG ofan í kokið á þjóðinni. Tryggja verður jafnræði til nýtingar á sameiginlegri auðlind. Fyrsta skrefið er augljóslega að auka frelsi strandveiða og að koma á gegnsærri verðmyndun á afla með því að verðlagning fari fram á frjálsum og opnum uppboðsmarkaði.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×