Fram kemur í tilkynningunni hver ástæðan fyrir þessu er: „Tilraunir til að tryggja framtíð fyrirtækisins báru ekki árangur.“
Sjónvarpsstöðin N4 hefur verið starfandi síðastliðin 15 ár. „Fólkið í landinu hefur verið í brennidepli í allri framleiðslu efnis. N4 hefur varðveitt sögu þjóðarinnar. Þessum kafla í sögu fjölmiðla á Íslandi er lokið að sinni.“
Vildi leggja niður RÚV á landsbyggðinni
María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4, skrifaði fjárlaganefnd Alþingis bréf þann 1. desember síðastliðinn þar sem hún óskaði eftir því að starfsemi RÚV utan höfuðborgarsvæðisins yrði lögð niður. Starfsmenn þeirra stöðva yrðu færðir undir nýja sjónvarpsstöð sem yrði stofnuð á grunni N4.
Í bréfinu óskaði María einnig eftir hundrað milljóna styrk til N4 fyrir árið 2023. Hún sagði að ef styrkurinn kæmi ekki færi sjónvarpsstöðin í þrot.
Málið vakti furðu þingmanna úr öllum flokkum og þótti sem fjárlaganefnd hefði veitt einum miðli hundrað milljóna króna styrk á meðan aðrir einkareknir fjölmiðlar landsins skiptu með sér fjögur hundruð milljónum. Stjórnsýslufræðingur sagði meðferð fjárlaganefndar á málinu jaðra við lagabrot.
Svo fór að Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra útskýrði að hundrað milljónirnar sem meirihluti fjárlaganefndar lagði upphaflega til að rynni til fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiddu sjónvarpsefni færu í almennt styrkjakerfi fyrir fjölmiðla.
Einkareknir fjölmiðlar geta því sótt um styrk úr 500 milljóna króna sjóði í ár en ekki 400 milljóna króna sjóð.
Ekki náðist í Maríu Björk við vinnslu fréttarinnar.