Landsliðið átti erfitt haust þar sem töp fyrir Hollandi og Portúgal í sitthvorum landsliðsglugganum gerðu HM-vonir liðsins að engu. Athygli vakti að Ísland hafi ekki nýtt gluggann í nóvember í kjölfarið á meðan mörg önnur helstu landslið heims voru í eldlínunni.
Þorsteinn segist hafa viljað gefa leikmönnum frí.
„Ég hef alveg fullan skilning á því, auðvitað vilja leikmenn alltaf frá tækifæri. Ég taldi það bara rétt fyrir hópinn sem slíkan að gefa leikmönnum frí. Mér fannst tímapunkturinn bara eðlilegur. Í framhaldinu í byrjun árs hafa verið skrifaðar greinar um álag á knattspyrnukonum,“ sagði Þorsteinn í samtali við Val Pál Eiríksson íþróttafréttamann en viðtalið birtist í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Þannig að ég er ekki í nokkrum vafa um að ég hafi verið að gera rétt. Líka í ljósi þess að mér fannst leikmenn hafa andlega gott af því að fara í frí, til að hlaða batteríin og hreinsa kollinn,“ bætti Þorsteinn við.
Þorsteinn segir að þegar liðið hittst á nýju ári verði síðasta skrefið stigið í því að koma vonbrigðaghaustinu frá.
„Við tökum eitthvað „session“ í kringum það og förum yfir raunverulega ákveðna hluti í fortíðinni. Í grunninn erum við meira að horfa á þá hluti sem við höfum stjórn á og við stjórnum framtíðinni en ekki fortíðinni,“ sagði Þorsteinn.
Allt viðtal Vals Páls við Þorstein má sjá hér fyrir ofan.