Erlent

Mikilvægar vikur í vændum í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn í þjálfun í Bretlandi. Verið er að þjálfa þá í notkun Challenger 2 skriðdreka og eiga þeir að verða komnir til Úkraínu í næsta mánuði.
Úkraínskir hermenn í þjálfun í Bretlandi. Verið er að þjálfa þá í notkun Challenger 2 skriðdreka og eiga þeir að verða komnir til Úkraínu í næsta mánuði. Getty/Andrew Matthews

Ráðamenn í Úkraínu búast við umfangsmiklum árásum Rússa í austurhluta landsins á næstu vikum. Þeir segja Rússa hafa komið tugum og jafnvel hundruð þúsund hermönnum fyrir á svæðinu og þeir séu þegar byrjaðir að reyna að brjóta varnir Úkraínumanna á bak aftur með því að senda hermenn fram í bylgjum.

Sérfræðingar segja sókn Rússa mögulega byrjaða en Rússar hafa náð hægum en mjög kostnaðarsömum árangri á undanförnum dögum í Úkraínu.

Í samtali við Foreign Policy (áskriftarvefur) segja úkraínskir embættismenn að Rússar hafi nú rúmlega þrjú hundruð þúsund hermenn í Úkraínu í kjölfar herkvaðningarinnar í haust, sem ráðamenn í Evrópu segja að hafi aldrei verið stöðvuð. Rússar séu enn að kveðja menn í herinn en fari leynt með það.

Sérfræðingar sem vakta átökin segja þó líklegt að raunverulegur fjöldi rússneskra hermanna sé nokkuð lægri að svo stöddu.

Þeir eru þó fleiri en tóku þátt í upprunalegri innrás Rússa í febrúar í fyrra og staðsettir á mun minna svæði en þá. Á móti kemur að hermennirnir eru margir kvaðmenn, sem hafa fengið litla þjálfun og eru ekki jafn vel búnir og atvinnuhermennirnir sem réðust inn í Úkraínu í fyrra.

Í heildina eru mun fleiri hermenn á mun minni víglínum en áður hefur verið í Úkraínu.

„Við búumst við risastórri nýrri innrás á næstu tíu dögum,“ sagði einn viðmælandi Foreign Policy úr úkraínska hernum.

Sækja fram í bylgjum

Blaðamaður Wall Street Journal ræddi við hermann nærri Bakhmut í Dónetsk héraði en Rússar hafa um nokkuð langt skeið lagt mikið púður í að ná bænum á sitt vald. Þeir eru sagðir nærri því að umkringja bæinn og telja sérfræðingar mögulegt að Úkraínumenn muni hörfa þaðan á næstu dögum

Majórinn Yuriy Harkaviy sagði frá því að í janúar hefði sveit hans skotið sprengikúlum að um tuttugu rússneskum hermönnum sem sóttu að Bakhmut. Skömmu síðar hafi aðrir tuttugu birst og svo tíu í viðbót. Síðar þann dag komu tuttugu rússneskir hermenn til viðbótar og þeim tókst að grafa skurði aðeins nær Bakhmut en skurðir þeirra voru áður.

„Ég veit ekki hvenær þeir verða uppiskroppa með hermenn,“ sagði Harkaviy. „Það eru lík alls staðar.“

Úkraínumenn hafa einnig orðið fyrir miklu mannfalli í og við Bakhmut. Mannfallið er þó hærra meðal Rússa og Úkraínumenn segjast vera að draga máttinn úr Rússum og að endingu verði þeir viðkvæmari gagnvart gagnárásum.

Rússar hafa einnig verið að gera árásir nærri Vuhledar, suður af Bakhmut, og eru sagðir hafa orðið fyrir miklu mannfalli þar.

Vilja vopnin fyrr

Bakhjarlar Úkraínu hafa heitið því að senda Úkraínumönnum vestræna bryn- og skriðdreka, en í flestum tilfellum er útlit fyrir að þau vopn berist ekki til Úkraínu fyrr en í næsta mánuði eða í apríl.

Sjá einnig: Segja að vestrænir skriðdrekar brenni eins og aðrir

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að þeir fjórtán Challenger 2 skriðdrekar sem Bretar hefðu gefið Úkraínumönnum yrðu komnir til landsins í næsta mánuði. Verið er að þjálfa úkraínska hermenn í notkun þeirra í Bretlandi.

Sunak sagði einnig að Bretar væru tilbúnir til að þjálfa úkraínska flugmenn á vestrænar herþotur og gaf í skyn að til greina kæmi að útvega Úkraínumönnum slíkar þotur.

Sjá einnig: Ó­rjúfan­leg vin­átta þjóðanna tveggja

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur kallað eftir vestrænum orrustuþotum og langdrægari eldflaugum til að gera meðal annars árásir á birgðastöðvar Rússa bak við víglínurnar. Í Bretlandi í dag ítrekaði hann þá beiðni og sagði Úkraínu þurfa þotur til að verja sig.

„Ég veit ekki hvernig við eigum eftir að standa þessa árás af okkur. Það verður mjög erfitt,“ sagði úkraínskur þingmaður við Foreign Policy um væntanlegar árásir Rússa. „Við eigum ekki nóg af skotfærum, af öllu. Skriðdrekarnir koma svo ekki fyrr en seinna. Allt á að koma eftir árásina.“


Tengdar fréttir

Selenskí í ó­væntri heim­sókn til Bret­lands í dag

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti mun í dag heimsækja Bretland í fyrsta sinn síðan Rússar réðust inn í heimaland hans fyrir tæpu ári síðan. Heimsóknin er óvænt en við því er búist að Selenskí muni á morgun ferðast til Brussel til fundar við Evrópusambandið.

Rússar hóta að auka árásir sínar vegna vopnasendinga

Bandaríkjamenn eru byrjaðir að senda Bradley bryndreka til Úkraínu en hafa einnig lofað að senda þangað öflugri skriðdreka ásamt nokkrum ríkjum Evrópu. Varnarmálaráðherra Rússlands segir að með þessu séu bandalagsþjóðirnar að reyna að lengja í stríðinu.

Segir Pútín hafa lofað sér því að láta ekki drepa Selenskí

Naftali Bennett, fyrrverandi forsætisráðherra Ísrael, hefur greint frá því að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hafi heitið honum því skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu að hann myndi ekki láta drepa Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×