Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, greinir frá þessu á Facebook og vísar í umfjöllun bæjarráðs Hafnarfjarðar um málið í morgun.
Segir Rósa að undanfarið hafi REC Studio ehf. undirbúið uppbyggingu kvikmyndavers hér á landi, auk aðstöðu fyrir tengda þjónustu. Fyrirtækið hafi valið Hafnarfjörð undir staðsetningu kvikmyndaversins.
„Þetta er gríðarlega spennandi fyrir okkur Hafnfirðinga. Hér geta orðið til hundruð góðra starfa, ýmis afleidd áhrif á fyrirtæki og aðra í bæjarfélaginu, aukin athygli og viðskipti í Hafnarfirði, skrifar Rósa.
Telja mikla eftirspurn eftir kvikmyndaverum
Í kynningu fyrirtækisins, sem fylgir fundargerð bæjarráðs þar sem Halldór Þorkelsson og Þröstur Sigurðsson hjá Arcur-ráðgjöf kynntu verkefnið, er vísað í að aukinn grundvöllur sé fyrir rekstri kvikmyndavers hér á landi eftir að endurgreiðsla vegna kvikmyndaframleiðslu var hækkað úr 25 prósent í 35 prósent.

Er þar einnig vísað í að fjölgun streymisveitna á heimsvísu og auknar vinsældir þeirra hafi gert það að verkum að fjárfestingar í kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum hafi aukist verulega á síðustu árum.
Mikil eftirspurn sé eftir plássi í myndverum, þá sérstaklega í þau sem séu nýlega byggð. Skortur sé á sérhæfðum, vel útbúnum myndverum og dæmi séu um að framleiðslufyrirtæki taki slík myndver á langtímaleigu.
Sjá má á myndum sem fylgja kynningunni að hugmyndir að kvikmyndaverinu eru umfangsmiklar. Bent er á að staðsetningin við Helluhraun sé hentug, stutt sé á Keflavíkurflugvöll og mikil nálægð við fjölda hótela. Þá sé rýmið á svæðinu gott enda þurfi að gera ráð fyrir að þörf sé á því fyrir ýmiskonar búnað hverju sinni.

Þá segist REC Studios búið að tryggja sér samstarf við helstu framleiðslufyrirtæki landsins, sem og erlenda sérfræðinga og framleiðendur.