Sport

Þjálfari skíða­drottningarinnar hætti á miðju heims­meistara­móti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikaela Shiffrin með silfrið sem hún vann í risasviginu fyrr á þessu heimsmeistaramóti.
Mikaela Shiffrin með silfrið sem hún vann í risasviginu fyrr á þessu heimsmeistaramóti. AP/Alessandro Trovati

Bandaríska skíðakonan Mikaela Shiffrin er að keppa á heimsmeistaramótinu í alpagreinum en hún mun klára mótið án þjálfara síns.

Mike Day, þjálfari Shiffrin, er farinn til sín heima en Shiffrin á enn eftir að keppa í tveimur uppáhaldsgreinum sínum.

Shiffrin talaði um það í blaðaviðtali á þriðjudaginn að hún vildi skipta um þjálfara eftir tímabilið en þjálfarinn ákvað að hætta strax þegar hann frétti það.

Alpagreinasamband Bandaríkjanna staðfesti þetta við AP-fréttastofuna.

Mikaela Shiffrin er búin að vinna ein verðlaun á þessu heimsmeistaramóti en hún vann silfur í risasvigi.

Í dag og á morgun keppir hún síðan í sínum uppáhaldsgreinum sem eru stórvig og svig.

Shiffrin hefur alls unnið tólf verðlaun á heimsmeistaramótum á ferlinum þar af sex gullverðlaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×