Smith sagði fyrir dómi að hann hefði verið þunglyndur, einmana og verið að drekka mikið þegar hann ákvað að leka leyndarmálum til Rússa með því markmiði að valda yfirvöldum Bretlands skömm.
Dómarinn gaf þó ekki mikið fyrir þá afsökun, samkvæmt frétt Sky News. Hann sagði öryggisvörðinn hafa safnað mikið af leyndarmálum til að koma þeim til óvinveitts ríkis og valda Bretlandi skaða.
„Þitt starf var að tryggja öryggi sendiráðsins og starfsfólksins þar,“ sagði dómarinn. Hann sagði einnig að Smith hefði fengið greitt fyrir njósnir sínar, sem fólust meðal annars í því að útvega Rússum nöfn, myndir og upplýsingar um starfsmenn sendiráðsins.
Smith tók einnig myndir og skjöl af skrifborðum og úr skúffum og útvegaði Rússum einnig myndband sem hann tók upp er hann gekk um ganga sendiráðsins og myndaði inn á skrifstofur.
Smith er einnig sagður hafa gefið Rússum leynileg skjöl sem innihéldu meðal annars skilaboð til Boris Johnson, sem þá var forsætisráðherra Bretlands.
Njósnarinn hafði verið undir eftirliti um nokkuð skeið áður en hann var handtekinn. Samkvæmt yfirlýsingunni frá lögreglunni í Lundúnum komst upp um hann þegar hann sendi bréf til starfsmanns sendiráðs Rússlands en það bréf innihélt leynileg skjöl og upplýsingar um starfsmenn breska sendiráðsins.
Rannsóknin hófst í lok árs 2020 og var meðal annars fylgst með Smith með földum myndavélum.
Til að góma hann lögðu rannsakendur fyrir hann gildru í ágúst 2021. Breskur útsendari þóttist vera rússneskur embættismaður og fór í sendiráðið. Þar sá hann til þess að Smith heyrði sig bjóðast til þess að útvega Bretum leynilegar upplýsingar frá Rússlandi.
Smith sagði Rússum frá því og var honum skipað að taka afrit af þessum meintu leynilegu upplýsingum, sem hann og gerði. Var hann í kjölfarið handtekinn fyrir njósnir.
Hann var einungis sakfelldur fyrir að njósnir frá 2020 til 2021 en dómarinn sagðist sannfærður um að Smith hefði byrjað að njósna fyrir Rússa árið 2018 og byggði hann þá skoðun sína á gögnum málsins.
Hér að neðan má sjá yfirlýsingu saksóknara um dóminn í dag.