Enski boltinn

Stoltur af sínum mönnum eftir dramatískan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikel Arteta fagnar.
Mikel Arteta fagnar. Mark Leech/Getty Images

„Við sýndum mikinn karakter og þrautseigju með því að koma tvívegis til baka og enda á að vinna leikinn,“ sagði Mikel Arteta um dramatískan 4-2 sigur sinna manna í Arsenal á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni fyrr í dag.

Arsenal lenti tvívegis undir og virtist vera að tapa stigum enn eina ferðina en allt kom fyrir ekki og tvö mörk undir lok leiks tryggðu Skyttunum stigin þrjú.

„Við verðum að læra af leik dagsins, sérstaklega fyrri hálfleiknum þar sem við gerðum ekki einföldu hlutina nægilega vel. Með því gáfum við þeim tækifæri til að skora einföld mörk. Við töluðum saman í hálfleik og leikmennirnir fóru að gera það sem þurfti til að vinna.“

Um það sem fór úrskeiðis í fyrri hálfleik

„Hvernig við gáfum boltann frá okkur, vorum galopnir og leyfðum Ollie Watkins að komast einn á einn. Við vissum að það væri áhyggjuefni fyrir leik. Þeir áttu tvö skot og skoruðu tvö mörk. Hrós á þá fyrir það en í seinni hálfleik yfirspiluðum þá, sköpuðum færi eftir færi og vorum með yfirhöndina. Við þurftum eitthvað magnað og Jorginho sá um það.“

Um stemninguna í klefanum

„Klefinn var gjörsamlega skoppandi af gleði. Við lögðum mikið á okkur aðeins 72 tímum eftir leik og úrslit sem hafa mikil áhrif andlega. Ég er mjög ánægður með strákana.“

Arsenal fékk svo enn betri fréttir eftir að leik þeirra lauk í dag þar sem Manchester City mistókst að vinna Nottingham Forest. Það þýðir að Skytturnar eru á toppi deildarinnar með tveggja stiga forystu á ríkjandi meistara Man City.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×