Um fimmtíu vagnar flutningalestar Norfolk Southern-lestarfélagsins fóru út af sporinu við bæinn Austur-Palestínu í Ohio við ríkjamörkin að Pennsylvaníu 3. febrúar síðastliðinn. Engan sakaði en ýmis konar eiturefni sluppu út í umhverfið við slysið.
Nokkrir vagnanna innihéldu eiturefnið vinýlklóríð sem hefur verið tengt við aukna hættu á nokkrum tegundum krabbameins í fólki. Þegar yfirvöld óttuðust að öflug sprenging gæti orðið í þeim var ákveðið að brenna efnin og íbúum skipað að yfirgefa heimili sín.
Samgönguöryggisstofnun Bandaríkjanna segir að hjólalega hafi verið orðin óeðlilega heit nokkrum kílómetrum áður en lestin fór loks út af sporinu. Þegar slysið varð var hiti legunnar um 253 gráðum yfir lofthita, að því er fram kemur hjá Washington Post.
Stofnunin slær því þó ekki föstu að ofhitnun legunnar hafi verið meginorsök slyssins. Verkfræðingur um borð reyndi að stöðva lestina þegar viðvörunarbjöllur fóru í gang, örskömmu fyrir slysið. Lestin er talin hafa verið á um 75 kílómetra hraða þegar hún fór út af sporinu eða um fimm kílómetra hraða undir hámarkshraða. Málið er enn í rannsókn.