Handbolti

Ís­lendinga­lið Gum­mers­bach tapaði gegn botn­liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Daði var markahæstur í liði Gummersbach í kvöld.
Hákon Daði var markahæstur í liði Gummersbach í kvöld. Getty Images

Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach máttu þola súrt eins marks tap gegn Hamm-Westfalen, botnliði þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Gummersbach leiddi með tveimur mörkum í hálfleik.

Gummersbach var í fínum málum í fyrri hálfleik og hafði spilað frábæra vörn þar sem heimamenn í Hamm-Westfalen höfðu aðeins skorað 10 mörk. Því miður höfðu gestirnir aðeins skorað 12 og munurinn því tvö mörk þegar flautað var til fyrri hálfleiks.

Í síðari hálfleik fór sóknarleikur Gummersbach algjörlega í vaskinn og liðið skoraði aðeins níu mörk. Fór það svo að liðið mátti þola súrt eins marks tap þökk sé sigurmarki Yonatan Dayan þegar rúm hálf mínúta var til leiksloka, lokatölur 22-21.

Hákon Daði Styrmisson var markahæstur í liði Gummersbach með 5 mörk. Elliði Snær Viðarsson komst ekki á blað en gaf 1 stoðsendingu.

Gummersbach er í 12. sæti með 18 stig eftir 20 leiki. Hamm-Westfalen situr sem fastast á botni deildarinnar með aðeins 5 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×