Mourinho-lausir Rómverjar stukku upp í Meistaradeildarsæti

Gianluca Mancini skoraði mark Rómverja í kvöld.
Gianluca Mancini skoraði mark Rómverja í kvöld. Vísir/Getty

Roma lyfti sér upp í fjórða sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar er liðið vann mikilvægan 1-0 sigur gegn Juventus í kvöld. José Mourinho tók út leikbann í leiknum eftir að hafa fengið sitt þriðja rauða spjald á tímabilinu.

Rómverjar eru því líklega orðnir nokkuð vanir því að spila án þess að hafa þjálfara sinn á hliðarlínunni og Gianluca Mancini kom liðinu í forystu snemma í síðari hálfleik eftir stoðsendingu frá Bryan Cristante.

Það reyndist eina mark leiksins, en gestirnir í Juventus þurftu þó að leika seinustu mínúturnar manni færri eftir að Moise Kean nældi sér í beint rautt spjald á lokamínútu venjulegs leiktíma.

Niðurstaðan því 1-0 sigur Roma sem nú situr í fjórða sæti með 47 stig eftir 25 leiki. Juventus situr hins vegar í áttunda sæti með 35 stig.

Þá vann Inter öruggan 2-0 sigur er liðið tók á móti Lecce fyrr í kvöld þar sem Henrikh Mkhitaryan og Lautaro Martinez sáu um markaskorun heimamanna. Þórir Jóhann Helgason var ekki í byrjunarliði Lecce, en kom inn á þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira