Fótbolti

Segir að Kompany sé ætlað að stýra Manchester City einn daginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vincent Kompany mun taka við sem knattspyrnustjóri Manchester City einn daginn.
Vincent Kompany mun taka við sem knattspyrnustjóri Manchester City einn daginn. Anthony Devlin/PA Images via Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að það sé skrifað í skýin að fyrrverandi fyrirliði liðsins, Vincent Kompany, muni taka við sem knattspyrnustjóri Englandsmeistaranna einn daginn.

Kompany er í dag knattspyrnustjóri Burnley þar sem íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson leikur. Burnley og Manchester City mætast einmitt í átta lið úrslitum ensku bikarkeppninnar þann 18. mars næstkomandi.

„Hans örlög eru að stýra Manchester City einn daginn. Það er skrifað í skýin,“ sagði Guardiola um sinn fyrrum leikmann.

„Fyrr eða síðar mun hann stýra þessu liði. Það mun gerast. Ég veit ekki hvenær, en það mun gerast. Ég finn það á mér,“ bætti Spánverjinn við.

Kompany tók við Burnley í júní á síðasta ári og hefur náð frábærum árangri með liðið. Burnley trónir á toppi ensku B-deildarinnar með tólf stiga forskot og í raun fátt sem getur komið í veg fyrir að liðið tryggi sér sæti í deild þeirra bestu á ný.

Undir stjórn Kompany hefur liðið aðeins tapað tveimur deildarleikjum á tímabilinu og er nú komið í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar í fyrsta sinn í tuttugu ár.

„Stöðugleikinn sem liðið hefur sýnt er ótrúlegur. Ég er mjög hrifinn af því sem hann hefur gert því B-deildin er erfið vegna þess hversu margir leikir eru á tímabilinu.“

„Þeir eru nálægt því að vinna sér inn sæti í úrvalsdeildinni aftur og ég er mjög ánægður fyrir hans hönd með hversu góðum árangri hann hefur náð,“ sagði Guardiola að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×