Fótbolti

Fiorentina stöðvaði sigurgöngu ítölsku meistaranna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fiorentina vann sterkan sigur gegn AC Milan í kvöld.
Fiorentina vann sterkan sigur gegn AC Milan í kvöld. Gabriele Maltinti/Getty Images

Fiorentina vann góðan 2-1 sigur er liðið tók á móti Ítalíumeisturum AC Milan í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Fyrir leikinn höfðu meistararnir unnið þrjá deildarleiki í röð.

AC Milan sat í fjórða sæti deildarinnar fyrir leik kvöldsins og hefði með sigri stokkið upp í annað sæti. Gengi Fiorentina á tímabilinu hefur hins vegar ekki verið upp á marga fiska og liðið sat í 12. sæti fyrir leikinn.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Nicolas Gonzalez heimamönnum í Fiorentina í forystu með marki af vítapunktinum á 49. mínútu. Luka Jovic tvöfaldaði svo forystu heimamanna með marki þegar um þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og brekkan orðin brött fyrir meistarana.

Theo Hernandez klóraði þó í bakkann fyrir AC Milan á fimmtu mínútu uppbótartíma, en þá var það orðið of seint og niðurstaðan varð 2-1 sigur Fiorentina.

Eftir sigurinn situr Fiorentina enn í 12. sæti deildarinnar, nú með 31 stig eftir 25 leiki. AC Milan situr enn í fjórða sæti með 47 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×