Erlent

Hyggja á laga­setningu sem ESB segir ó­sam­ræman­lega gildum sam­bandsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Boðað hefur verið til frekari mótmæla síðar í dag.
Boðað hefur verið til frekari mótmæla síðar í dag. AP/Zurab Tsertsvadze

Þúsundir mótmælenda söfnuðust saman í Tbilisi, höfuðborg Georgíu, í dag til að mótmæla fyrirhuguðum lögum sem gagnrýnendur segja ógna málfrelsi í landinu. Óeirðarlögregla var kölluð til og beitti vatnsbyssum og piparúða gegn mótmælendum.

Frumvarpið sem um ræðir hefur verið harðlega gagnrýnt en það kveður á um að stofnanir sem eru ekki á vegum hins opinbera (NGO) og einkareknir fjölmiðlar sem fá meira en 20 prósent af rekstrarfé sínu erlendis frá skrái sig sem erlenda aðila (e. foreign agents).

Stjórnarandstaðan í Georgíu hefur kallað lögin „rússnesk“ og segja þau aðför gegn samfélagslegum fjölbreytileika og frjálsum fjölmiðlum. 

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur gangrýnt frumvarpið og segir það ganga gegn vilja Georgíumanna. Georgía hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu en Josep Borrell, æðsti yfirmaður utanríkismála hjá ESB, segir fyrirhugaða lagasetningu ósamræmanlega við gildi sambandsins.

Stjórnvöld í Rússlandi tóku upp áþekka lagasetningu árið 2012, um „erlenda aðila“, sem hefur verið útvíkkuð síðan og beitt gegn stofnunum og fjölmiðlum. Einn mótmælenda sagði í samtali við Reuters að Georgíumenn vildu hins vegar ekki tilheyra fyrrverandi Sovétríkjum, heldur Evrópu.

Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, hefur lýst yfir stuðningi við mótmælendur og sagt að framtíð Georgíu sé innan Evrópusambandsins. Þingmeirihlutinn virðist hins vegar á öndverðum meiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×