Innlent

Slökkvi­lið bjargaði gínu úr Hafnar­fjarðar­höfn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gínan losnaði af taumi og virðista hafa flotið um höfnina án þess að hægt var að ná til hennar.
Gínan losnaði af taumi og virðista hafa flotið um höfnina án þess að hægt var að ná til hennar. Vísir/Sigurjón

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti heldur óvenjulegu útkalli í nótt vegna kvikmyndatöku við Hafnarfjarðarhöfn. Þar voru menn við tökur þegar taumur losnaði af gínu sem rak um höfnina og gátu kvikmyndatökumennirnir ómögulega náð henni aftur.

Þegar lögregla kom á vettvang var slökkviliðið ræst út, sem tókst að ná gínunni úr sjónum. Henni var komið fyrir á hafnarbakkanum, þar sem hún var að lokum sótt af kvikmyndatökuliðinu.

Rétt fyrir miðnætti var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í miðborginni, þar sem skemmdir höfðu verið unnar á hurð. Þá var tilkynnt um ölvaðan einstakling sem var öðrum til ama en eftir stutt spjall við lögreglu varð niðurstaðan sú að viðkomandi kæmi sér bara heim í háttinn í rólegheitunum.

Einn ökumaður var stöðvaður þar sem engin ljós voru á bifreið hans. Hann reyndist bæði réttindalaus og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá fundust fíkniefni á manninum þegar leitað var á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×