Fótbolti

Fátt sem virðist geta stöðvað Napoli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Amir Rrahmani og Eljif Elmas fagna marki þess fyrrnefnda í leiknum í kvöld.
Amir Rrahmani og Eljif Elmas fagna marki þess fyrrnefnda í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Napoli vann enn einn sigurinn í Serie A deildinni á Ítalíu í dag þegar liðið vann góðan sigur á Atalanta. Napoli er sem fyrr í efsta sæti deildarinnar og fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að þeir fagni titlinum í vor.

Napoli hefur verið eitt heitasta lið Evrópu í vetur enda liðið aðeins tapað tveimur deildarleikjum á tímabilinu. Sá seinni kom fyrir viku síðan gegn Lazio og þá voru einhverjir sem veltu því fyrir sér hvort liðið væri að hiksta fyrir lokasprett tímabilsins.

Svarið við því virðist vera nei. Liðið mætti í dag Atalanta á heimavelli í leik sem beðið var með eftirvæntingu þar sem Atalanta er í sjötta sæti og að berjast um Evrópusæti.

Staðan í hálfleik í dag var markalaus en á 60. mínútu kom Georgíumaðurinn frábæri, Khvicha Kvaratskhelia, Napolli yfir þegar hann skoraði eftir sendingu Victor Osimhen. Þrettán mínútum síðar tryggði Amir Rrahmani Napoli síðan 2-0 sigur þegar hann bætti við öðru marki.

Lokatölur í kvöld 2-0 og Napoli endurheimti því átján stiga forskot sitt á toppi deildarinnar. Atalanta er áfram í sjötta sæti, fimm stigum á eftir Roma og AC Milan sem eru í sætunum fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×