Innlent

Skot­maðurinn hand­tekinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum The Dubliners í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi.
Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum The Dubliners í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Vísir/Stöð 2

Maður sem grunaður er um að hafa skotið af byssu inni á skemmtistaðnum The Dubliner í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi hefur verið handtekinn. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segist ekki ætla að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Engar frekari upplýsingar um handtökuna var að finna í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér nú skömmu fyrir klukkan 22:00 í kvöld. Í henni kemur aðeins fram að rannsókn málsins miði vel.

Sá grunaði fór inn á skemmtistaðinn þar sem hann átti í orðaskiptum áður en hann hleypti af einu skoti við bar um sjö leytið í gærkvöldi. Maðurinn lét sig svo hverfa. Byssa fannst í nágrenninu sem lögregla telur að maðurinn hafi notað. Hans hafði verið leitað frá því í gærkvöldi.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, útilokaði ekki að atburðurinn tengdist hnífaárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club í fyrra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Þetta er bara hluti af því sem við erum með til rannsóknar, hvort þetta tengist öðrum málum sem hafa komið upp. Þetta vekur athygli náttúrulega, að það sé verið að nota skotvopn með þessum hætti. Það hefur kannski ekki alveg verið það sem við eigum að venjast hér en hvort þetta tengist einhverjum öðrum erjum fólks kemur þá bara í ljós við rannsóknina ef svo er.“

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×