Áður en Katrín og Þórdís Kolbrún komu til Bucha komu þær við í bænum Borodianka þar sem margir féllu á fyrstu dögum innrásar Rússa í febrúar í fyrra. Þaðan héldu þær síðan til Bucha þar sem að minnsta kosti 450 lík af óbreyttum borgurum hafa fundust eftir að Rússar höfðu verið flæmdir þaðan á brott.
Bærinn liggur rétt norðan við höfuðborgina Kænugarð. Þetta er í annað skiptið sem Þórdís Kolbrún kemur til bæjarins en hún heimsótti landið í nóvbember í fyrra ásamt utanríkisráðherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra komu til Kænugarðs snemma í morgun eftir um sólarhrings ferðalag. Þær héldu þegar í fygld öryggissveita Volodymyrs Zelenskys forseta til Bucha. Þær funda síðan með forsetanum og öðrum ráðamönnum síðar í dag.

Bergþóra Benediktsdóttir aðstoðarmaður Katrínar og Þórlindur Kjartansson aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar tóku myndirnar sem fylgja þessari frétt. Á þeim sjást Katrín og Þórdís Kolbrún skoða ummerkin eftir eyðileggingu Rússa. Ónafngreindur fulltrúi stjórnvalda í Úkraínu skýr þeim frá því sem gerðist.



Í Bucha lögðu Katrín og Þórdís Kolbrún blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða um þá fjölmörgu sem Rússar myrtu í bænum. Þær skoðuðu einnig myndasýningu inni í kirkju í bænum af aðstæðum eins og þær voru þegar Úkraínumenn frelsuðu bæinn úr klóm Rússa.




Fréttin var uppfærð klukkan 09:57 og aftur klukkan 10:10.