Innlent

Hafa ekki tekið á­kvörðun um gæslu­varð­hald yfir byssu­manninum

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 sagðist Grímur ekki útiloka að atburðurinn tengdist hnífaárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club í fyrra.
Í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 sagðist Grímur ekki útiloka að atburðurinn tengdist hnífaárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club í fyrra. Vísir/Arnar

„Það er eiginlega ekkert nýtt. Ég hugsa að það skýrist seinna í dag hvort það verði gerð krafa um gæsluvarðhald,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við Vísi.

Vísir greindi frá því í gærkvöldi að maðurinn sem grunaður er um að hafa skotið af byssu inni á skemmtistaðnum The Dubliner í miðborg Reykjavíkur á sunnudagskvöld hafi verið handtekinn. Yfirheyrslur yfir manninum standa nú yfir.

Að sögn Gríms var maðurinn handtekinn með sérsveit ríkislögreglustjóra.

„Hann finnst á grundvelli þess að við erum með allskonar upplýsingar, bæði úr öryggismyndavélum, sem og upplýsingar frá almenningi, og svo bara upplýsingar sem við notum við svona leit, sem við förum kannski ekki nákvæmlega út í hverjar eru,“ segir Grímur.

Hann getur engar frekari upplýsingar gefið um hinn handtekna á þessu stigi.

„Það eina sem ég get sagt er að þessi maður er grunaður um aðild að þessu máli. Þetta er maður um þrítugt. Á þessu stigi er svosem ekkert meira um það að segja.“

Í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 í gærkvöldi sagðist Grímur ekki útiloka að atburðurinn tengdist hnífaárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club í fyrra.

„Við höfum haft það til skoðunar hvort svo geti verið, hvort það séu tengsl, en það eru annars bara stöðluð vinnubrögð hjá okkur að skoða slíkt,“ segir hann í samtali við Vísi.

Þá segir hann að ekki sé talið vera tilefni til þess að auka viðbúnað lögreglu í miðborginni, líkt og gert var í kjölfar Bankastræti Club málsins í nóvember í fyrra.

„Án þess að fara nákvæmlega út í það hver okkar vinnubúnaður er þáget ég sagt að á þessu stigi höfum við ekki ekki aukið viðbúnað neitt sérstaklega.“


Tengdar fréttir

Telja sig komna á slóð byssu­manns

Lögregla er komin á slóð byssumanns sem hleypti af skoti á skemmtistaðnum Dubliner í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Yfirlögregluþjónn býst við að maðurinn verði handtekinn áður en langt um líður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×