Hér má sjá þáttinn:
Sigga Björg útskrifaðist árið 2004 með MFA gráðu frá Glasgow School of Art.
„Þegar ég var að byrja að halda sýningar þá var ég rosa mikið að sýna í London. Á einni sýningu var ég að sýna í County Hall galleríinu,“ segir Sigga Björg og rifjar í leiðinni upp sögulega stund í sínu lífi. Hún hafi verið að vinna á safninu seint um kvöld og þá sprakk pera inn í sýningarsalnum hennar.
„Þetta var einhvern veginn ómögulegt, það var ekkert ljós. Þá var tæknimaður á safninu sem bauð mér að koma inn í næsta herbergi, þar sem var permanent sýning á verkum eftir Salvador Dali. Hann sagði bara: Við skulum taka einn ljóskastara af þessari sýningu og setja á þitt verk.“
Sigga Björg segist þá hafa spurt hann hvort það væri bara allt í lagi.
„Hann sagði já, en þú verður að gera það sjálf. Þannig að hann lét mig fara upp stiga og taka niður kastara af verki eftir Salvador Dali og hengja hann upp á mína mynd. Það var rosa gott móment fyrir nýútskrifaðan listamann,“ segir Sigga Björg hlæjandi.
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.