Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. Fjöldi snjóflóða féll á Austurlandi á mánudag, meðal annars í Neskaupstað, Seyðisfirði, Reyðarfirði og í Mjóafirði. Þá féll lítið snjóflóð úr Skágili í Neskaupstað um hálf eitt í dag, að því er fram kemur í frétt RÚV. Þar segir að flóðið hafi fallið að horninu á ysta varnargarðinum í bænum en ekki náð að garðinum og ekki valdið tjóni.
Húsin á Seyðisfirði við bætast nú við fyrri rýmingar eru:
- Gilsbakki 1
- Hamrabakki 8 -12
Fulltrúar aðgerðastjórnar munu fara milli húsa frá klukkan 20 og 21 og aðstoða og veita leiðbeiningar þeim er þurfa.

Áður hefur verið greint frá því að fyrri rýmingar á Eskifirði, í Neskaupstað og Seyðisfirði séu enn í gildi:
- Á Eskifirði er reitur 4 rýmdur, sem eru öll hús ofan Dalbrautar.
- Í Neskaupstað eru það reitir 4 - 5 - 6 – 16 – 17 og 20. (Sjá hlekk á vef Veðurstofu)
- Á Seyðisfirði eru það reitir 4 – 5 – 6 – 7 – 16 – 17 og 18. Við það bætist þá reitur 14 í kvöld.
Ekkert skólahald í Neskaupstað út vikuna
Í tilkynningu frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð segir að í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi séu í Neskaupstað vegna ofanflóðahættu og rýminga hafi verið ákveðið að ekkert skólahald verði í Nesskóla, leikskólanum Eyrarvöllum og Tónskóla Neskaupstaðar, fimmtudaginn 30. mars og föstudaginn 31. mars. Sama eigi við um Verkmenntaskóla Austurlands en þar verði ekki skólahald þessa daga.
„Einnig mun ekkert skólahald verða í leikskólanum Dalborg á Eskifirði á meðan rýmningu varir á svæði 4 á Eskifirði. Snillingadeild leikskólans sem staðsett er í Eskifjarðaskóla mun verða opinn. Stefnt er að því að skólahald í öðrum skólastofnunum Fjarðabyggðar verði með óbreyttum hætti, en foreldrar eru hvattir til að fylgjast með tilkynningum sem munu verða sendar út í fyrramálið ef breytingar verða á því,“ segir í tilkynningunni.