Hólmfríður Dóra kom í mark á á 1:15,67 mínútu og var aðeins 21/100 úr sekúndu frá því að taka silfurverðlaunin af hinni pólsku Marynu Gasienica-Daniel.
Sigurvegari keppninnar var hin slóvenska Ilka Stuhec sem samkvæmt FIS-stigum er sú besta í heiminum á þessu ári í bruni, og hún var aðeins 1,75 sekúndu á undan Hólmfríði Dóru.
Það sem gerir árangur Hólmfríðar Dóru ekki síður athyglisverðan er að hún hefur glímt við meiðsli stóran hluta vetrarins, sem meðal annars kostaði hana þátttöku á HM.
Í síðustu viku greindi Hólmfríður Dóra frá því á Instagram að hún væri mætt aftur til æfinga með liði sínu á Ítalíu eftir „fjóra langa mánuði af meiðslum“, og sagði „ekkert annað í stöðunni en að keyra á þetta", sem hún svo gerði í Austurríki í gær.
Á heimasíðu Skíðasambands Íslands segir að frammistaða Hólmfríðar Dóru hafi verið mjög góð í Austurríki enda hafi hún verið á undan mörgum skíðakonum sem skráðar séu mun hærra á FIS-stigatöflunni.