Að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi ná rýmingarnar í Neskaupstað til efstu húsaraðanna á reitum átta, ellefu og fjórtán, eða við Urðarteig, Blómstursvelli, og Víðimýri, að undanskildum húsum 2 til 12a við Urðarteig.
Rýmingin tekur gildi klukkan þrjú og gildir þar til önnur tilkynning verður gefin út. Fulltrúar aðgerðarstjórnar fara nú milli húsa og aðstoða eða leiðbeina þeim sem þurfa.
Veðurstofan ákvað fyrir um klukkustund að rýma nokkrar götur á Stöðvarfirði og húsið Ljósaland á Fáskrúðsfirði. Rýmingin þar tók gildi klukkan fjögur og gildir þar til önnur tilkynning verður gefin út. Þá eru áfram rýmingar á Seyðisfirði og Eskifirði.
Veðurspár virðast vera að ganga eftir en appelsínugular viðvaranir eru í gildi á Austfjörðum, bæði vegna mikillar snjókomu og vegna rigningar og asahláku.