Viðskipti innlent

Hóp­upp­sögn hjá Heim­kaup

Máni Snær Þorláksson skrifar
Pálmi Jónsson, framkvæmdastjóri Heimkaups.
Pálmi Jónsson, framkvæmdastjóri Heimkaups. Vísir/Ívar Fannar

Tuttugu og fjórum starfsmönnum Heimkaups var sagt upp í dag. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir uppsagnirnar vera fylgikvilla endurskipulagningar innan fyrirtækisins. Aldrei sé þó auðvelt að fara í uppsagnir.

„Það hefur ekki farið framhjá neinum að sá kaldi veruleiki núverandi efnahagsástands. Hin þráláta verðbólga, ítrekaðar vaxtahækkanir og kraftmiklu launahækkanir í síðustu kjarasamningum hafa haft sitt að segja, almenningur heldur í síauknum mæli að sér höndum með margvísleg innkaup,“ segir Pálmi Jónsson, framkvæmdastjóri Heimkaups í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.

Pálmi segir að fyrirtækið hafi ákveðið að fara í endurskipulagningu á rekstrinum sökum þess hve erfitt rekstrarumhverfið er. Farið hafi verið ítarlega í saumana á öllum þáttum í rekstri fyrirtækisins. 

„Megin áhersla þeirra er að ná fram aukinni hagræðingu, í því felst að einfalda og straumlínulaga ferla rekstursins og einblína á þá vöruflokka sem viðskiptavinir eru mest að kalla eftir, því viðskiptavinir Heimkaupa þekkja okkar góða dagvöruúrval og afbragðs heimsendingarþjónustu og þar verður engin breyting á.“

Sem fyrr segir var tuttugu og fjórum starfsmönnum sagt upp í kjölfar endurskipulagningarinnar:

„Fylgikvillar endurskipulagningar sem þessari fylgja því miður uppsagnir sem er aldrei auðvelt að fara í. Í dag þurfti Heimkaup er að leggja niður 24 stöðugildi.“

Að lokum segir Pálmi að þau fyrirtæki sem aðlaga sig aðstæðum hverju sinni eigi betur með að fóta sig í síbreytilegu viðskiptaumhverfi. 

„Með þessum aðgerðum stendur fyrirtækið styrkari fótum og við horfum bjartsýn til framtíðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×