Innlent

Heimilt að „fram­selja“ kyn­frumur og fóstur­vísa til fyrr­verandi og eftir­lifandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frumvarpið fjallar um kynfrumur og fósturvísa sem hafa verið geymd í tengslum við tæknifrjóvgun.
Frumvarpið fjallar um kynfrumur og fósturvísa sem hafa verið geymd í tengslum við tæknifrjóvgun. Getty

Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp þess efnis að kynfrumum og fósturvísum verði ekki lengur sjálfkrafa eytt við sambúðar- eða hjúskaparslit eða andlát. Munu einstaklingar þannig geta veitt heimild fyrir notkun kynfruma og fósturvísa þrátt fyrir breyttar aðstæður.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmið þess sé að virða vilja einstaklinga eða pars sem hefur geymt kynfrumur eða fósturvísa í tengslum við tæknifrjóvgunarferli tli að nýta kynfrumur eða fósturvísa þrátt fyrir breytingu á sambúðarformi eða andlát. 

Með breytingunni sé einstaklingum veitt ríkara ákvörðunarvald yfir eigin kynfrumum og fósturvísum við framangreindar aðstæður.

Ef frumvarpið verður að lögum mun einstaklingur sem hefur samþykkt geymslu kynfruma eða fósturvísa getað veitt skriflegt og vottað samþykki fyrir því að fyrrverandi eða eftirlifandi maki geti notað kynfrumurnar eða fósturvísana.

Þetta er hins vegar þeim skilyrðum háð að umræddur einstaklingur, það er að segja makinn, sé einhleypur þegar tæknifrjóvgun á sér stað og að viðkomandi geti notað kynfrumurnar eða fósturvísana í eigin líkama.

Þannig munu aðeins konur eða trans karlar geta nýtt sér lagabreytinguna en ekki karlar eða trans konur.

„Með breytingunni er ekki verið að heimila gjöf fósturvísa og notkun þriðja aðila. Eingöngu þeim sem stóðu að geymslu fósturvísa er heimilt að samþykkja notkun eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit og er með notkun átt við nýtingu í eigin líkama. Þá er þeim sem eiga kynfrumur í geymslu eingöngu heimilt við sambærilegar aðstæður að samþykkja notkun fyrrverandi eða eftirlifandi maka í eigin líkama. Eðli málsins samkvæmt er því einungis heimilt að samþykkja notkun leghafa á kynfrumum eða fósturvísum eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit,“ segir í greinargerðinni.

Hér má lesa frumvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×