Tilkynnt var um flutningana í febrúar 2022 en þá var stefnt á flutninga í janúar 2023. Vegna framkvæmda í gömlu Kassagerðinni dróst það aðeins en versluninni á Hverfisgötu var lokað þann 31. janúar og versluninni í Fellsmúla var lokað 20. febrúar.
Nú liggur fyrir að nýja verslunin muni opna á morgun, fyrsta apríl, klukkan ellefu en tekið er fram í tilkynningu að þetta sé ekki aprílgabb.
Nýja verslunin er tvöfalt stærri en eldri verslun Góða hirðisins. Fréttastofa kíkti í heimsókn fyrr í mánuðinum þar sem undirbúningur var í fullum gangi en fréttina má finna í spilaranum hér fyrir neðan.
Tekið er fram í tilkynningu að húsnæðið sé allt mun hentugra fyrir bæði viðskiptavini og starfsfólk en með stærri verslun er stefnt að því að koma fleiri vörum aftur inn í hringrásina en mögulegt var í minna húsnæði.
„Góði hirðirinn er flaggskip í hringrásarhagkerfinu á Íslandi þar sem notaðar vörur, sem safnað er á endurvinnslustöðvum SORPU, eru seldar nýjum notendum. Með þessu þarf ekki að framleiða nýjar vörur heldur nota áfram þær gömlu, með tilheyrandi ávinningi fyrir loftslagið og jörðina,“ segir í tilkynningunni.
Skrifstofur Sorpu flytjast einnig í húsnæðið og er stefnt á að aðeins fyrirtæki með græna stefnu verði á svæðinu.