Menning

Ein­hverfu­fé­lagið blæs til lista­sýningar: „Við getum gert allt sem annað fólk getur gert“

Árni Sæberg skrifar
Eva Ágústa Aradóttir (t.v.) er einn skipuleggjenda sýningarinnar og Margrét Oddný Leópoldsdóttir á verk á sýningunni.
Eva Ágústa Aradóttir (t.v.) er einn skipuleggjenda sýningarinnar og Margrét Oddný Leópoldsdóttir á verk á sýningunni. Stöð 2

Nóg verður um að vera í húsnæði Hamarsins ungmennahúss í Hafnarfirði um helgina þar sem Einhverfufélagið hefur sett upp listasýningu.

Einhverfusamtökin munu fagna alþjóðlegum degi einhverfunnar, sem haldinn er 2. apríl ár hvert, á forsendum einhverfra, með listsýningu þar sem áherslan er lögð á fjölbreytni og styrkleika einhverfs fólks.

Eva Ágústa Aradóttir, einn skipuleggjenda sýningarinnar, segir að á sýningunni muni ýmissa grasa kenna.

„Það er bara eiginlega allt við erum með myndlist, ljósmyndir, teikningar, málverk og við erum með ljóðalestur, við sýnum stuttmynd,“ segir hún. 

Margrét Oddný Leópoldsdóttir, listakona og félagi í Einhverfusamtökunum, segir sýninguna hafa mikla þýðingu fyrir samtökin.

„Fyrir okkur er aðalmálið að sýna fjölbreytileikann í hópnum. Við erum alls konar og við erum bara venjulegt fólk. Svona aðeins að brjóta upp steríótýpuna af einhverfum og að sýna að við getum gert allt sem annað fólk getur gert,“ segir hún.

Þá segir Eva Ágústa að lengi hafi einhverfir verið í felum eða haft þá ímynd að þeir kunni ekkert. „Að við getum ekki talað, að við getum ekki tjáð okkur, að við getum ekki verið fyndin eða skemmtileg, í rauninni bara nefndu það. Listinn af því sem við getum ekki er í raun ótæmandi miðað við hugmyndir fólks um okkur. En listinn sem er ótæmandi, yfir það sem við getum, hann er líka stór. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þessi sýning sé til staðar, svo við fáum að vera við,“ segir hún.

Nánari upplýsingar um sýninguna má nálgast á vef Einhverfusamtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×