Körfubolti

Mar­tröð Luka og Kyri­e heldur á­fram | Peli­cans á upp­leið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jimmy Butler sá til þess að Luka og Kyrie fóru ósáttir á koddann.
Jimmy Butler sá til þess að Luka og Kyrie fóru ósáttir á koddann. Megan Briggs/Getty Images

Aðeins tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Báðir gætu þó haft gríðarleg áhrif á hvernig umspilið og úrslitakeppnin í Vesturdeildinni lítur út þegar deildarkeppninni lýkur. Miami Heat vann sjö stiga sigur á Dallas Mavericks, 129-122. Þá vann New Orleans Pelicans átta stiga sigur á Los Angeles Clippers, 122-114.

Dallas hefur verið í frjálsu falli undanfarnar vikur. Liðið var að berjast um heimavallarrétt í úrslitakeppnina yfir í að berjast um sæti í henni en er nú dottið úr sætunum sem skila liðum í umspilið. Eins og staðan er í dag eru leikmenn Dallas á leiðinni í frí þegar deildarkeppninni lýkur. Eitthvað sem Luka Dončić hefur lítinn áhuga á.

Eins og oft áður var það varnarleikur Dallas sem kostaði liðið í nótt. Heat skoraði 44 stig í fyrsta leikhluta gegn 31 stigi hjá Dallas. Var grunnurinn að sigrinum strax lagður þar en Luka, Kyrie og félagar áttu engin svör. Lokatölur 129-122 og Dallas nú tapað 41 leik en aðeins unnið 37.

Hjá Miami Heat var Jimmy Butler stigahæstur með 35 stig en hann gaf einnig 12 stoðsendingar. Cody Zeller skoraði 20 stig og gamla brýnið Kevin Love skoraði 18 stig og tók 5 fráköst.

Í tapliðinu var Luka stigahæstur með 42 stig ásamt því að taka 10 fráköst og gefa 8 stoðsendingar. Tim Hardaway Jr. skoraði 31 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Hinn margumtalaði Kyrie Irving skoraði svo 23 stig og gaf 8 stoðsendingar.

Í hinum leik næturinnar þá var það Clippers sem byrjaði betur en Pelicans sneru dæminu við. Pelicans var 10 stigum undir að loknum fyrsta leikhluta en aðeins stigi undir í hálfleik. Í síðari hálfleik tókst Pelicans að komast yfir og vann á endanum mikilvægan sigur. Lokatölur 122-114 sem þýðir að Pelicans hefur nú unnið 40 leiki og tapað 38 á meðan Clippers hefur unnið 41 og tapað 38 leikjum.

Hjá Pelicans var Brandon Ingram stigahæstur með 36 stig. Hann gaf einnig 8 stoðsendingar. Þar á eftir kom Jonas Valančiūnas með 23 stig og 12 fráköst. Hjá Clippers skoraði Kawhi Leonard 40 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Russell Westbrook kom þar á eftir með 24 stig, 9 stoðsendingar og 3 fráköst.

Stöðuna í deildinni, bæði Vestur- og Austurdeild, má sjá hér að neðan en Clippers og Los Angeles Lakers eiga eftir að mætast innbyrðis í leik sem gæti skipt sköpum hvort liðið fer beint í úrslitakeppnina eða hvort þarf að fara í gegnum umspilið. Þá á Pelicans eftir að spila við Minnesota Timberwolves.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig umspilið lítur út í dag. Það getur þó margt breyst á þeim tíu dögum sem eru þangað til það hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×