Umfjöllun,viðtöl og myndir: Grindavík - Njarðvík 86-94 | Haukur Helgi hetja Njarðvíkur

Andri Már Eggertsson skrifar
Ólafur Ólafsson og Haukur Helgi Pálsson í baráttunni
Ólafur Ólafsson og Haukur Helgi Pálsson í baráttunni Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík vann Grindavík í hörkuleik í Röstinni 86-94. Leikurinn var jafn og spennandi alveg þar til undir lok fjórða leikhluta þá setti Haukur Helgi Pálsson stór skot og kláraði leikinn. Njarðvík þarf því aðeins að vinna einn leik í viðbót til að fara áfram í undanúrslitin. 

Það var mikil ákefð strax í byrjun hjá báðum liðum. Gestirnir hittu afar vel í fyrsta leikhluta og eftir átta mínútur var Njarðvík með 72 prósent skotnýtingu í opnum leik. Heimamönnum tókst að halda sér meira fyrir framan leikmenn Njarðvíkur og þvinga þá í erfiðari skot. Eftir fyrsta fjórðung var Njarðvík sex stigum yfir 19-25.

Lisandro Rasio gerði 16 stig í kvöldVísir/Hulda Margrét

Annar leikhluti einkenndist af áhlaupum. Njarðvík byrjaði betur og komst tíu stigum yfir. Heimamenn svöruðu með tíu stigum í röð og jöfnuðu leikinn. Njarðvík átti síðasta höggið í fyrri hálfleik. Gestirnir voru fimm stigum yfir í hálfleik 43-48.

Richotti í baráttunni við Kristófer BrekaVísir/Hulda Margrét

Dedrick Deon Basile var frábær í fyrri hálfleik og sá um að setja stig á töfluna fyrir Njarðvík. Basile gerði sautján stig og klikkaði aðeins á einu skoti.

Njarðvík byrjaði seinni hálfleik betur og var með yfirhöndina. Grindavík tók síðan yfir leikinn um miðjan þriðja leikhluta. Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var sótillur út í dómarana þar sem Ólafur Ólafsson fékk ódýra villu. Eftir það gekk allt upp hjá Grindavík og heimamenn gerðu átta stig í röð. Grindavík komst þá í fyrsta skipti yfir í leiknum.

Stuðningsmenn Grindavíkur létu heyra vel í sér Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík var þremur stigum yfir 66-69 þegar haldið var í síðasta fjórðung.

Fjórði leikhluti var æsispennandi fyrstu sjö mínúturnar en ólíkt síðasta leik þá var það Njarðvík sem spilaði betur síðustu þrjár mínúturnar.

Haukur Helgi Pálsson var allt í öllu hjá Njarðvík undir lokinVísir/Hulda Margrét

Einu stigi yfir setti Haukur Helgi Pálsson, leikmaður Njarðvíkur, liðið á bakið á sér og kláraði leikinn. Haukur setti niður afar stór skot og gerði tíu af síðustu tólf stigum Njarðvíkur. Leikurinn endaði með átta stiga sigri Njarðvíkur 86-94.

Zoran Vrkic var svekktur eftir leikVísir/Hulda Margrét
Það var vel mætt í Röstina í kvöldVísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Njarðvík?

Það var töluvert meira jafnræði með liðunum í þessum leik heldur en síðasta. Njarðvík vann hins vegar með stærri mun í kvöld heldur en þegar liðin mættust í Ljónagryfjunni.

Leikurinn vannst á síðustu þremur mínútunum þá spilaði Njarðvík töluvert betur á báðum endum vallarins og Grindavík gerði aðeins tvær körfur á síðustu þremur mínútunum sem var allt of lítið.

Hverjir stóðu upp úr?

Dedrick Deon Basile stóð venju samkvæmt fyrir sínu. Basile gerði 30 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Basile endaði með 35 framlagspunkta.

Haukur Helgi Pálsson gerði aðeins sex stig í síðasta leik og svaraði fyrir það. Haukur gerði tíu stig þegar allt var undir í lokin og endaði með 21 stig.

Hvað gekk illa?

Grindavík spilaði töluvert heilsteyptari leik í kvöld heldur en síðast gegn Njarðvík en tapaði samt sem áður. Grindavík er komið með bakið upp við vegg 2-0 undir í einvíginu.

Grindvíkingar misstu hausinn á lokamínútunum þar sem þeir létu dómarann fara allt of mikið í taugarnar á sér.

Uppsprettan var á rökum reist þar sem Pitts klikkaði á sniðskoti en fékk snertingu en dómararnir flautuðu ekki villu. Í næstu sókn fékk Basile nokkuð ódýra villu fyrir samskonar atvik og Grindvíkingar voru ekki sáttir með ósamræmið. Eftir það var hausinn farinn.

Hvað gerist næst?

Þriðji leikurinn í einvíginu verður næsta þriðjudag klukkan 18:15 í Ljónagryfjunni. 

„Allar villurnar sem dómararnir dæmdu undir lokin duttu Njarðvíkur megin“

Jóhann Þór Ólafsson að tala við sína menn í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var svekktur eftir leik og var ósáttur með dómgæsluna. 

„Njarðvík setti niður stór skot undir lokin sem við gerðum ekki og þar tapaðist leikurinn. Þetta var svekkjandi þar sem við spiluðum ágætlega en það er bara áfram gakk,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson eftir leik.

Jóhanni fannst Grindavík spila töluvert betur í kvöld heldur en í síðasta leik en niðurstaðan tap á heimavelli.

„Varnarlega vorum við betri sérstaklega í seinni hálfleik. Við vorum að taka betri ákvarðanir í sókn og það var framför alls staðar á vellinum. Njarðvík setti síðan niður stór skot en við gerðum það ekki.“

Jóhann Þór var ekki sáttur með hvernig leikurinn var dæmdur en vildi ekki fara að leika fórnarlamb. 

„Við getum farið að leika fórnalömb og farið að tuða yfir einhverjum atriðum en við ætlum ekki að gera það heldur setja kassann út og mæta klárir í næsta leik gegn Njarðvík.“

„Mér fannst allar villurnar sem dómararnir dæmdu undir lokin detta Njarðvíkur megin. Þetta er tuð og væl. Ég hef ekki verið í þessu í vetur en í svona jöfnum leik þá skiptir þetta máli,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson að lokum.

Benedikt: Var hissa hvernig við gerðum 48 stig í fyrri hálfleik

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með sigur kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með sigurinn.

„Við unnum þennan leik með meiri mun heldur en fyrsta leikinn þrátt fyrir að leikurinn hafi þróast allt öðruvísi. Núna vorum við góðir síðustu þrjár mínúturnar en síðast vorum við hræðilegir síðustu þrjár mínúturnar,“ sagði Benedikt Guðmundsson eftir leik.

Benedikt var nokkuð ánægður með hvernig fyrri hálfleikur þróaðist.

„Ég var hissa að við hefðum gert 48 stig í fyrri hálfleik miðað við hvernig við vorum að hitta fyrir utan þriggja stiga línuna. Ég var mjög hissa á öllum þessum stigum sem við vorum með í hálfleik. Loksins fórum við að setja niður þriggja stiga skot í fjórða leikhluta og það kláraði leikinn fyrir okkur.“

Njarðvík spilaði töluvert betur en Grindavík síðustu þrjár mínúturnar og Benedikt var ánægður með að skotin hans Hauks Helga Pálssonar hafi farið ofan í.

„Haukur Helgi byrjaði á að setja þrist í horninu og fékk villu að auki sem var mjög stór. Þetta atvik gerði mikið fyrir hann þar sem hann var kokhraustur þegar hann setti seinni þristinn ofan í. Ef hann hefði klikkað þá hefði þetta verið hræðileg ákvörðun og þá væri ég ekki að hrósa honum en fyrst hann setti skotið ofan í þá kom hann út sem hetja,“ sagði Benedikt Guðmundsson að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira