Erlent

Ógilding markaðsleyfis þungunarrofslyfs vekur ugg

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Chuck Schumer lét Repúblikana heyra það vegna ákvörðunar dómara í Texas um að ógilda markaðsleyfi þungunarrofslyfs.
Chuck Schumer lét Repúblikana heyra það vegna ákvörðunar dómara í Texas um að ógilda markaðsleyfi þungunarrofslyfs. Getty

Demókratar eru æfir vegna ógildingar dómara í Texas í Bandaríkjunum á markaðsleyfi þungunarrofslyfsins mifepresone. Um sé að ræða stórhættulegt fordæmi.

Dómarinn Matthew J. Kacsmaryk, sem er þekktur andstæðingur þungunarrofs, ógilti samþykki Matvæla- og lyfjastofnunar (FDA) Bandaríkjanna um markaðsleyfi lyfsins. Í dómnum talar hann um þungunarrof með „efnum“ og um fóstur sem „ófædd börn“ og „ófæddar manneskjur“.

Ákvörðunin hefur vakið hörð viðbrögð vestanhafs. 

„Eitt er alveg á hreinu, ákvörðunin gæti steypt landi okkar í ringulreið,“ sagði Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni við fréttamenn í dag. 

„Repúblikanar hafa algjörlega snúið lyfjastofnuninni, eins og við þekktum hana, á hvolf og hótað því að hvert einasta lyf á markaðnum gæti misst markaðsleyfið.“

Sækjandinn í málinu var hópur lækna og samtaka sem sögðu mifepristone ógn við heilsu stúlkna og kvenna.

„Hvað kemur næst þegar einhver róttækur jaðarhópur ákveður að höfða mál? Krabbamein? Insúlín? Geðlyf?“ spyr Schumer.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sendi einnig frá sér yfirlýsingu í kjölfar dómsins, þar sem hann tók í sama streng.  Ef dómurinn yrði látinn standa myndi það þýða að engar ákvarðanir FDA væru óhultar frá hugmyndafræðilegum og pólitískum árásum.

Öldungardeildarþingmaðurinn Patty Murray segir Demókrata munu gera allt til þess að bandaríska þjóðin átti sig á því að Repúblikanar séu ábyrgir fyrir ringulreiðinni.

„Þessi rökræða mun fara fram fyrir allra augum,“ segir hún.


Tengdar fréttir

Dómari aftur­kallar leyfi FDA fyrir þungunar­rofslyfi

Dómari í Texas í Bandaríkjunum hefur ógilt samþykki Matvæla- og lyfjastofnunar (FDA) Bandaríkjanna um markaðsleyfi fyrir þungunarrofslyfið mifepristone. Um er að ræða fyrsta skiptið sem dómstóll hlutast til um leyfisveitingu stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×